Útgjöld vegna lyfja eru vanáætluð í fjárlögum næsta árs sem til umfjöllunar eru á Alþingi. „Ein afleiðing af ítrekaðri vanáætlun er að stjórnvöld grípi reglubundið til vanhugsaðra niðurskurðaraðgerða sem stefna beinlínis lyfjaöryggi og þar með öryggi sjúklinga í hættu,“ segir í sameiginlegri umsögn Frumtaka, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnurekenda við frumvarpið.
Bent er á að verulega sé vikið frá þeim kostnaði sem Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) ætla að falli til í málaflokknum á næsta ári. Þannig áætlar SÍ að kostnaður vegna almennra lyfja nemi tæpum 15 milljörðum króna næsta ári en fjárheimildir samkvæmt fjárlagafrumvarpinu nema einungis tæpum 12,9 milljörðum.
Sömu sögu er að segja um leyfisskyld lyf (svokölluð S-lyf) líkt og fram kemur í umsögn Landspítalans við frumvarpið. Þar er bent á að áætlaður kostnaður vegna leyfisskyldra lyfja nemi á næsta ári tæpum 14,5 milljörðum króna, en fjárheimild fjárlaga hljóði upp á tæpa 12,9 milljarða.
Í fjárlögum er því 4,3 milljarða króna gat þegar kemur að fjárveitingum vegna almennra og leyfisskyldra lyfja.
„Að óbreyttu er ekkert svigrúm fyrir að taka ný lyf í notkun á árinu 2022 og fjárveitingar duga ekki fyrir þeim lyfjameðferðum sem nú þegar eru í gangi,“ segir í niðurlagi umsagnar Landspítalans, sem Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, settur forstjóri Landspítalans, skrifar undir.
Að mati Frumtaka væri nær að miða fjárheimildir fjárlaga við faglega unnar áætlanir þannig að hverfa megi frá þeirri stöðu sem uppi hefur verið síðustu ár að raunútgjöld vegna málaflokksins séu langt umfram fjárlög.
„Nú endurtekur sig staðan í ár, þar sem stefnir í 2,7 milljarða króna halla vegna almennra lyfja miðað við síðasta endurmat Sjúkratrygginga á kostnaði vegna málaflokksins. Það er alvarlegt ef fjárveitingarvaldið horfir fram hjá kostnaðarmati sem byggir á faglegum forsendum, þar sem meðal annars er horft til þróunar sjúkdóma, fólksfjölgunar og breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka.
„Við viljum að fólki standi til boða heilbrigðisþjónusta sem stenst samanburð við það sem best gerist í heiminum. Hætt er við að slíkt markmið náist ekki þegar trekk í trekk er rangt gefið af hálfu fjárveitingarvaldsins.“