Framlög til lyfjamála í frumvarpi til fjárlaga næsta árs benda ekki til að staða Íslands í samanburði við nágrannalöndin batni varðandi fjölda nýrra lyfja á markað hér á landi. Ísland er enn töluvert undir meðaltali Evrópulanda í þessum efnum líkt og fram kom í samantekt EFPIA fyrr á árinu.
Heildarfjárheimild til lyfjamála fyrir árið 2025 er áætluð tæpir 35,6 milljarðar króna í fjárlagafrumvarpinu sem nú er til umræðu á Alþingi og hækkar um tæpar 1.032 milljónir króna frá gildandi fjárlögum, að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum sem nema rúmri 721 milljón króna.
Kostnaður umfram fjárheimildir þessa árs stefnir hins vegar í að verða um 1.066 milljónir króna fyrir bæði leyfisskyld og almenn lyf, eða um 34 milljónum króna meira en nemur aukningunni til málaflokksins í fjárlögum næsta árs.
„Við höfum um árabil bent á hversu langt Ísland er eftir nágrannalöndum sínum í markaðsskráningu nýjustu lyfja. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir aukningu til málaflokksins í takti við framúrskot útgjalda til málaflokksins í ár. Því má segja að staðið sé í stað,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka.
„Við viljum að hér standi fólki til boða heilbrigðisþjónusta sem stenst samanburð við það sem best gerist í heiminum og auðvitað hefðum við fremur viljað sjá í fjárlagafrumvarpinu innspýtingu til styrkingar, þannig að við gætum að minnsta kosti staðið jafnfætis nágrannalöndum okkar.“
Frumtök hafa bent á að ástæða þess að ekki hefur gengið betur að auka aðgengi að nýjustu og bestu lyfjum hér á landi sé blanda af fjárheimildum og krafna um að í innkaupum lyfja sé miðað við lægsta lyfjaverð í viðmiðunarlöndum og þess að lítið tillit sé tekið til smæðar markaðarins hér.
„Aukinn sveigjanleiki þar sem almennt yrði miðað við meðalverð Norðurlandanna, í stað lægsta verðs, og að í verðákvörðunum yrði tekið tillit til sérstöðu Íslands hvað varðar hlutfallslega háan dreifingar- og umsýslukostnað myndi skila okkur langt. En slík stefnubreyting þyrfti líka stuðning með auknum fjárheimildum,“ segir Jakob Falur.
Hér má sjá samantekt Frumtaka um stöðu og þróun útgjalda til lyfjamála: