Skip to main content

Það er mikilvægt að fjárlög vegna leyfisskyldra lyfja taki mið af örri þróun nýrra lyfja, fjölgun einstaklinga með illvíga sjúkdóma og aðgengi þeirra að bestu mögulegu meðferð, segir í umsögn Landspítala.

Frumvarp til fjárlaga 2026 er nú til umfjöllunar í fjárlaganefnd Alþingis. Enn og aftur er komin fram gagnrýni á fyrirhugaðar fjárheimildir til lyfjakaupa á komandi ári. Í umsögn Landspítala við frumvarpið er lýst áhyggjum af stöðu mála, en eins og segir í umsögninni er ekki gert ráð fyrir nægilega miklum vexti, hvorki í núgildandi fjárlögum 2025 né í frumvarpi til fjárlaga fyrir 2026, til að mæta auknum kostnaði vegna nýrra og kostnaðarsamra leyfisskyldra lyfja og fjölgunar sjúklinga sem greinast með illvíga sjúkdóma.

Fyrir rétt rúmu ári síðan birtum við hér á heimasíðunni frétt undir fyrirsögninni Kyrrstaða í framlögum til fjármála. Segja má að samskonar frétt hafi verið birt árlega um langt árabil. Og enn er sama staða uppi. Í umsögn Landspítala er á skýran og skilmerkilegan hátt farið yfir stöðuna sem nú er uppi. Þar segir að í núgildandi fjárlögum hafi einungis verið gert ráð fyrir 2% vexti milli ára, líkt og er gert í frumvarpi til fjárlaga næsta árs. Landspítali segir réttilega ekki raunhæft að fjárlög taki eingöngu mið af vexti vegna aukningar í mannfjölda og fjölgunar aldraðra því mesta útgjaldaaukningin er vegna innleiðingar nýrra kostnaðarsamra lyfja, og nefnir sérstaklega í því samhengi miklar og örar framfarir í meðferð krabbameina á undanförnum árum.

Jafnframt segir í umsögn Landspítala að vegna stöðunnar á fjárlagaliðnum frá upphafi þessa árs hefur Lyfjanefnd Landspítala ekki getað mælt með greiðsluþátttöku í nýjum leyfisskyldum lyfjum það sem af er ári og að öllu óbreyttu muni ekki verða breyting á því á næsta ári. Ísland mun því dragast hratt aftur úr hinum Norðurlandaþjóðunum, segir í umsögninni.

Þá segir að tíu umsóknir um greiðsluþátttöku í leyfisskyldum lyfjum bíði afgreiðslu hjá Lyfjanefnd Landspítala, allar vegna lyfja sem eru komin í notkun á hinum Norðurlöndunum. Flest þau lyfja sem þar um ræðir eru ný krabbameinslyf.

Í lokaorðum umsagnarinnar, sem er undirrituð af Runólfi Pálssyni, forstjóra Landspítala, er áréttað mikilvægi þess að fjárlög vegna leyfisskyldra lyfja taki mið af örri þróun nýrra lyfja, fjölgunar einstaklinga með illvíga sjúkdóma og aðgengi þeirra að bestu mögulegu meðferð.

Að endingu segir:

Ef Landspítali á að geta tryggt aðgengi landsmanna að nýjum lyfjum í takt við það sem þekkist í nágrannalöndunum þá þarf samkvæmt fyrirliggjandi áætlun spítalans að auka fjárveitingu til leyfisskyldra lyfja sem nemur samtals 1.023 m.kr.