Samkvæmt breytingatillögu fjárlaganefndar Alþingis liggur fyrir að hátt í tuttugu milljörðum króna verði bætt við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Og samkvæmt sömu breytingartillögu liggur fyrir að ekkert tillit er tekið til ábendinga Landspítala um nauðsyn þess að auka fjárvetingar næsta árs til leyfisskyldra lyfja, en þar kemur fram að ef Landspítali eigi að geta tryggt aðgengi landsmanna að nýjum lyfjum í takt við það sem þekkist í nágrannalöndunum þá þurfi samkvæmt að auka fjárveitingu til leyfisskyldra lyfja sem nemur ríflega einum milljarði króna.
Fjárlaganefnd kýs að taka ekkert tillit til þessa, en beinir því til heilbrigðisráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar að rýna framkomin gögn og leggja mat á nauðsyn frekari fjárveitinga vegna þessa.
Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, segir með öllu óskiljanlegt að fjárveitingavaldið taki ekkert tillit til þeirra sjónarmiða sem Landspítali setur fram í sínu minnisblaði, en þar kemur m.a. fram:
Lyfjanefnd Landspítala hefur ekki getað mælt með greiðsluþátttöku í nýjum leyfisskyldum lyfjum það sem af er ári vegna fjárskorts og ef fram fer sem horfir er ljóst að engin breyting verði á næsta ári. Ísland mun dragast hratt aftur úr hinum Norðurlandaþjóðunum, þegar kemur að aðgengi að nýjum lyfjum.


