Meðal aðgerða sem ráðist verður í til að draga úr líkum á lyfjaskorti eru á endurbætur á tilkynningarformi vegna fyrirséðs skorts. Lyfjastofnun átti í vikunni fund með fulltrúum lyfjaframleiðenda og heildsöludreifingar lyfja vegna dæma sem upp hafa komið um skort á tilteknum lyfjum.
„Þetta var gagnlegur fundur þar sem farið var yfir verkferla og mögulegar úrbætur til að fyrirbyggja sem kostur er að upp komi aðstæður þar sem nauðsynleg lyf skortir,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka. „Upplýsa þarf betur um verkferla sem grípa á til þegar skortur er á einu lyfi en hægt að ávísa öðrum með sömu virkni og svo skerpa á framkvæmd reglna sem kveða á um tilkynningaskyldu markaðsleyfishafa til Lyfjastofnunar þegar skortur er fyrirséður.“
Landlæknir bendir á undanþáguleið
Vandamál tengd lyfjaskorti eru ekki séríslensk, en í gegn um tíðina hafa komið upp dæmi þar sem framleiðsla á lyfi raskast á heimsvísu vegna einhverra aðstæðna.
Lyfjastofnun grípur til ráðstafana til að útvega lyf, eða lyf með sambærilega virkni, þegar stofnuninni hefur við tilkynnt um yfirvofandi skort. Á vef stofnunarinnar er jafnframt að finna upplýsingar og fréttir af lyfjum sem bið hefur orðið á að séu til á markaði hér.
Þá vekur Embætti landlæknis á því athygli á vef sínum að læknar geti með undanþágulyfseðlum ávísað lyfjum, sem ekki hafi markaðsleyfi á Íslandi, auk lyfja sem hér hafi markaðsleyfi en séu ekki markaðssett. „Þau lyf eru oft til á lager á Íslandi og í þeim tilvikum því engin bið,“ segir þar.
Jakob Falur bendir á að lögum samkvæmt sé lyfsölum skylt að hafa á boðstólum lyf sem hér má selja og heildsölum lyfja að „eiga nægar birgðir“ að mati heilbrigðisyfirvalda af tilteknum nauðsynlegum lyfjum.
„Alla jafna gengur þetta vel. Þumalputtaregla vöruhúsa er að eiga tiltækar um tveggja mánaða birgðir af hverju lyfi, og svo þriðja mánuðinn í hafi, á leið til landsins. Vandinn er svo að bregðast við óvæntum sveiflum í eftirspurn eða ófyrirséðri röskun í framleiðslu. Þar þurfa allir sem að koma að leggjast á árar.“
Kanna þarf áhrif verðstefnu
Meðal þess sem huga þurfi betur að í framhaldinu, að mati Jakobs, er hvort vera kunni að sú stefna að hér sé ávallt miðað við lægsta verð á Norðurlöndum þegar verð lyfja er ákveðið, en það kunni mögulega að vera tregðuvaldur þegar kemur að skráningu lyfja hér. „Verð á Íslandi kann að vera í „verðkörfum“ sem miðað er við vegna ákvarðana um verð í öðrum löndum. Verð á afar smáum markaði hér kann því að hafa áhrif til lækkunar á verði á mun stærri markaðssvæðum.“
Um þetta er meðal annars fjallað í nýrri skýrslu Intellecon þar sem íslenskur lyfjamarkaður var rannsakaður. Í skýrslunni er velt upp þeirri hugmynd hvort tímabært sé að endurskoða fyrirkomulag ákvarðana um hámarksverð leyfisskyldra lyfja í heildsölu og hætta að miða almennt við lægsta verð á Norðurlöndum. „Íslenski markaðurinn er örsmár í þeim samanburði og kostnaður við innflutning og þjónustu að stórum hluta óháður stærð markaðarins sem gerir slíkan samanburð að mörgu leyti ójafnan.“ Fram kemur að aðrar leiðir séu færar til að tryggja lágt lyfjaverð á sama tíma og uppfyllt séu skilyrði laga um nægilegt framboð nauðsynlegra lyfja.