Skip to main content

Til þess að halda kostnaði við ný lyf innan heimilda segir lyfjanefnd Landspítalans ekki hægt að samþykkja greiðsluþátttöku í nýjum lyfjum, einstaklingsbundna greiðsluþátttöku, eða setja nýja sjúklinga á meðferðir sem samþykktar hafi verið á síðasta ári.

Þetta kemur fram í minnisblaði forstjóra Landspítala til heilbrigðisráðherra, en til þess var vitnað á fundi lyfjanefndar í mars, en síðustu fundargerðir nefndarinnar voru nýverið birtar á vef Landspítalans.

„Ef ekki fæst aukið fjármagn mun Ísland dragast hratt aftur úr hinum Norðurlöndunum og erfitt að tryggja jafnræði ef nýir sjúklingar geta ekki fengið meðferðir sem fordæmi eru fyrir,“ segir í fundargerðinni.

Á fundi nefndarinnar mánuði fyrr kom jafnframt fram að fundað hafi verið með ráðuneytinu vegna stöðunnar og bent á að jafnvel þyrfti að takmarka fjölda sjúklinga í meðferðir sem þegar hafi verið innleiddar.

Frumtök hafa varað við því að í óefni stefni vegna ónógra fjárveitinga.

„Við tökum undir þær áhyggjur sem koma fram í fundargerðum lyfjanefndar Landspítalans og teljum að fjárveitingarvaldið hljóti að þurfa að taka við sér til að rétta þessa stöðu og tryggja sjúklingum heilbrigðisþjónustu sem stenst samanburð við okkar nágrannalönd,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka.

Frumtök hafa bent á að ónógar fjárheimildir og umgjörð við ákvörðun lyfjaverðs þar sem ekki sé tekið tillit til smæðar íslensks markaðar skýri hversu illa hefur gengið að auka hér aðgengi að nýjustu og bestu lyfjum.

Til bóta yrði að miða, í stað lægsta verðs, við meðalverð Norðurlanda um leið og í verðákvörðunum yrði tekið tillit til sérstöðu landsins varðandi hlutfallslega háan dreifingar- og umsýslukostnað.

Eitthvað virðist þetta sjónarmið farið að ná athygli stjórnvalda, en í nýlegu minnisblaði heilbrigðisráðuneytis til velferðarnefndar Alþingis í tengslum við afgreiðslu frumvarps vegna breytingar á lyfjalögum segir ráðuneytið helstu gagnrýni í fjölmörgum umsögnum vera á verðstefnu stjórnvalda á sviði lyfjamála og hún talin helsta ástæða þess að hér sé lítið framboð lyfja.

Þar kemur fram að ráðuneytið hafi hafið vinnu við að skoða markaðsaðstæður hér á landi og muni eiga samtal við hagsmunaaðila í þeirri vinnu.

„Slík breyting yrði til mikilla bóta, en þyrfti líka stuðning með auknum fjárheimildum. Ábendingar lyfjanefndar Landspítalans eru til marks um að skortur á fjárheimildum sé því miður tekinn að bitna á sjúklingum,“ segir Jakob Falur.