Kynningarfundur vegna sameiginlegs lyfjakaupaútboðs Noregs, Danmerkur og Íslands, fór fram í Kaupmannahöfn síðastliðinn föstudag. Ísland hefur ekki áður verið þátttakandi í sameiginlegu útboði af þessu tagi. Gert er ráð fyrir að drög að útboðsgögnum verði kynnt í þessari viku og að útboðið sjálft fari fram snemma á næsta ári.
Í umfjöllun heilbrigðisráðuneytisins í sumar kemur fram að vonir standi til að með útboði á stærri markaði náist samlegðaráhrif „sem leiði til aukinnar hagkvæmni og lægra lyfjaverðs og tryggi betur fullnægjandi framboð lyfja hjá hlutaðeigandi þjóðum“. Þá kemur einnig fram að litið sé á útboðið sem reynsluverkefni til að afla þekkingar á ýmsum hagnýtum þáttum slíkra útboða. Horft sé til þess hvort þau skili árangri, hvernig árangurinn skuli metinn, hvaða lyf henti til sameiginlegra útboða og hvernig best verði að útboðum staðið til framtíðar.
Staðan gæti gjörbreyst
Frumtök leggja áherslu á mikilvægi þess að í öllum ákvörðunum um breytt fyrirkomulag innkaupa á lyfjum liggi fyrir hvaða áhrif slíkar breytingar kunni að hafa til bæði lengri og skemmri tíma. Þannig sé mikilvægt að lögum um opinber innkaup sé fylgt í hvívetna og fyrir liggi samkeppnismat hverju sinni áður en ákvörðun sé tekin um þátttöku í útboði.
Frumtök hafa áður bent á möguleg hliðaráhrif af auknu alþjóðlegu samstarfi um útboð lyfjakaupa og að ekki hafi farið fram greining á áhrifum slíks samstarfs á íslensk fyrirtæki, samkeppnisumhverfi þeirra og framtíðarþjónustu við heilbrigðiskerfið.
„Við höfum bent á að uppi sé gjörbreytt staða fyrir þjónustufyrirtæki á íslenskum lyfjamarkaði ef grundvallarbreyting sem þessi verður á innkaupastefnu langstærsta viðskipavinarins, í þessu tilviki Landspítala,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka. Um þetta er einnig fjallað í nýrri skýrslu Intellecon um íslenskan lyfjamarkað og vísbendingar sagðar um að rekstrarafkoma hvað varði þjónustu vegna lyfseðilsskyldra og S-merktra lyfja hafi farið mjög versnandi upp á síðkastið og sé langt undir því sem eðlilegt geti talist til lengri tíma litið.
Sérstaklega er fjallað afleiðingar þess kjósi hið opinbera að taka í auknum mæli þátt í alþjóðlegum útboðum með lyf. „Í því sambandi er rétt að benda á að hið opinbera gæti ekki einblínt á veltumestu lyfin í slíkum útboðum. Væri rekstrargrundvelli innlendra þjónustufyrirtækja kippt undan þeim með slíkri tilhögun þyrfti hið opinbera einnig að taka að sér innflutning veltuminni lyfjanna og þá þjónustu sem þeim fylgir, með tilheyrandi kostnaði og umsýslu,“ segir í skýrslunni. „Þetta má einnig orða sem svo að opinberir aðilar geta ekki fleytt rjómann af markaðnum með þátttöku í alþjóðlegum útboðum, ætli þeir um leið að tryggja nægjanlegt vöruframboð nauðsynlegra lyfja hér á landi.“
Kostnaðarhagræðið óljóst
Að sama skapi sé ljóst að ef hið opinbera taki yfir hlutverk innlendra þjónustufyrirtækja þurfi það að koma sér upp öllum þeim kerfum sem nauðsynleg eru, svo sem vegna gæðaeftirlits, skýrslugerðar, þýðinga, uppruna lyfja, og þar fram eftir götum. Þá komi allur annar kostnaður við beinan innflutning, svo sem vegna birgðahalds, dreifingar, vörurýrnunar, birgðafjármögnunar og birgðastýringar einnig til með að falla á hið opinbera.
„Kostnaðarhagræði af því að hið opinbera taki yfir þessa þjónustu alla er óljóst auk þess sem töluverður kostnaður hlytist af því að koma upp allri þeirri starfsemi sem nauðsynlega tilheyrir þjónustu við innflutning lyfja. Margra ára uppsöfnuð sérfræðiþekking og reynsla á þessu sviði liggur hjá þjónustufyrirtækjunum. Enda er það svo að í flestum þróuðum ríkjum hefur hið opinbera ekki séð sér hag í að taka yfir starfsemi þeirra, en notast þess í stað við markaðsöflin til að tryggja hagkvæm innkaup.“
Jakob Falur segir Frumtök leggja áherslu á að íhuga verði vandlega afleiðingar ákvarðana sem þessara og að íslensku heilbrigðiskerfi sé tryggð hagkvæmasta og besta þjónusta sem völ er á. „Rétt er að árétta að Frumtök leggjast ekki gegn því að heilbrigðiskerfið reyni að fá sín aðföng á sem hagkvæmastan hátt. Hins vegar þurfa áhrif breytinga á verklagi að liggja fyrir. Eftir því höfum við kallað og vonumst enn til þess að á þær óskir verði hlustað“.