Skip to main content

Ísland er enn töluvert undir meðaltali í Evrópulanda þegar kemur að markaðssetningu nýrra lyfja sem fengið hafa markaðsleyfi í Evrópu. Þetta er meðal þess sem lesa má úr nýrri samantekt EFPIA, samtaka frumlyfjaframleiðenda í Evrópu, um markaðssetningu nýrra lyfja.

Í árlegri skýrslu samtakanna eru lönd borin saman eftir því hversu mörg lyf hafa verið heimiluð í hverju landi fyrir sig af þeim sem fengið hafa markaðsleyfi Lyfjastofnunar Evrópu á fjögurra ára tímabili.

Staðan hefur verið sú að á hinum Norðurlöndunum eru ný lyf almennt markaðssett fyrr en Evrópumeðaltalið segir til um, og þar eru fleiri ný lyf tekin fyrr í notkun en gerist hér á landi. Staða Íslands í norræna samanburðinum hefur þó tekið nokkrum breytingum, því þó Ísland sé í raun á svipuðum slóðum og undanfarin ár, hefur það nú gerst að Noregur hefur fallið niður listann í þessum samanburði.

Í fyrra höfðu 31% viðmiðunarlyfjanna fengið markaðsleyfi á Íslandi, en í ár eru það 37%, sem skilar Íslandi í sæti fyrir ofan Noreg, með 61 samþykkt lyf af þeim 167 sem fengið höfðu markaðsleyfi í Evrópu á árunum 2019 til 2022.

Meðaltalið í Evrópu er hins vegar 43% eða 72 lyf af 167.

Flest ný lyf hafa verið tekin í notkun í Þýskalandi, Ítalíu og Austurríki, 88-75 prósent þeirra sem fengu markaðsleyfi á tímabilinu. Danmörk er í fimmta sæti með 109 lyf, eða 65 prósent.

„Við sjáum dálitlar breytingar á listanum milli ára og hlutfallslega hefur staða Íslands batnað þó að við séum enn langt frá því að vera meðal þeirra þjóða sem fremst standa við að tryggja íbúum landa sinna aðgang að nýjustu og bestu lyfjum,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka.

Frumtök hafa lengi bent á að hér á landi væri hægt að gera mun betur til að tryggja aðgengi að nýjustu lyfjum og bent á leiðir til úrbóta.

„Ástæða þess að ekki hefur gengið betur að rétta þessa stöðu er ekki síst að gerð hefur verið krafa um um lægsta lyfjaverð í viðmiðunarlöndum í innkaupum og lítið tillit tekið til smæðar markaðarins. Við höfum kallað eftir því að lyfjaverðstefna hins opinbera verði einfölduð þannig að samþykkt hámarksverð allra lyfja í heildsölu lúti sömu forsendum og að almennt verði miðað við meðalverð Norðurlandanna, í staðinn fyrir lægsta verð líkt og verið hefur um árabil varðandi sjúkrahúslyf. Þá þurfi í verðákvörðunum að taka tillit til sérstöðu Íslands hvað varðar stærð markaðarins og hlutfallslega háan dreifingar- og umsýslukostnað,“ segir Jakob Falur.

„Patients W.A.I.T.“ skýrsla EFPIA byggir á upplýsingum frá aðildarsamtökum EFPIA, en W.A.I.T. skammstöfunin stendur fyrir Patients Waiting to Access Innovative Therapies. Markmið skýrslugerðarinnar er leiða fram mun milli landa í aðgengi að lyfjum og hversu langan tíma tekur að fá greiðsluþátttöku ríkisins.

Tilkynningu EFPIA um útkomu skýrslunnar er að finna HÉR.