Skip to main content

Á aðalfundi Frumtaka – samtaka frumlyfjaframleiðenda á Íslandi, sem fram fór í gær 13. mars, fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf og ný stjórn var kjörin. Líkt og síðustu ár en ný stjórn einvörðungu skipuð konum, en svo hefur verið frá árinu 2021.

Ný stjórn Frumtaka 2025 ásamt framkvæmdastjóra..
Ný stjórn Frumtaka, ásamt framkvæmdastjóra. F.v.: Sandra Júlía Bernburg, Helga Ósk Hannesdóttir, Ragnhildur Reynisdóttir, Helga Erlingsdóttir, Jakob Falur Garðarsson, Sonja Steinsson Þórsdóttir og Sigrún Helga Sveinsdóttir. Á myndina vantar Dagmar Ýr Sigurjónsdóttur.

Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, stýrði fundinum og gerði grein fyrir helstu atriðum í starfsemi samtakanna og Sandra Júlía Bernburg formaður flutti skýrslu stjórnar.

Í máli Söndru Júlíu kom meðal annars fram að margt hafi áunnist í starfi samtakanna síðustu ár, svo sem við bætta umgjörð almennra lyfja og að komið sé til móts við helstu ábendingar samtakanna í drögum að breytingu á lyfjalögum sem kynnt hafi verið í samráðsgátt stjórnvalda.

Ákveðin vonbrigði séu hins vegar að samtökin hafi þurft að standa í málarekstri á hendur Landspítala vegna ágreinings um kröfur og skilmála í útboðsgögnum sem betur hefði verið leystur í viðræðum. Málinu hafi nú verið skotið til ESA, eftirlitsstofnunar EFTA.

Eins sé áhyggjuefni að í nýlega samþykktum fjárlögum séu fjárveitingar til leyfisskyldra lyfja langt frá því að mæta þeim útgjöldum sem fyrirsjáanleg séu. Þar kunni að hafa haft áhrif skammur aðdragandi kosninga og eigi eftir að koma í ljós hvernig á endanum spilast úr.

Sandra Júlía benti jafnframt á þá staðreynd að síðasti stjórnarfundur fyrir aðalfund hafi verið númer 250. Samtökin hafi verið stofnuð 26. október 2005 og eigi því tuttugu ára afmæli í haust. „Í tilefni þess höfum við ákveðið að halda afmælisráðstefnu með pomp og prakt,“ sagði hún, en stefnt er að þeim viðburði í lok október.

Nýja stjórn Frumtaka skipa:

  • Dagmar Ýr Sigurjónsdóttir, Novo Nordisk
  • Helga Erlingsdóttir, Eli Lilly
  • Helga Ósk Hannesdóttir, deildarstjóri viðskipta- og greiningadeildar hjá Vistor
  • Ragnhildur Reynisdóttir, MSD
  • Sandra Júlía Bernburg, Pfizer
  • Sigrún Helga Sveinsdóttir, Boehringer Ingelheim
  • Sonja Steinsson Þórsdóttir, AstraZeneca