Samtök lyfjaframleiðenda í Evrópu, EFPIA, sendu nýverið frá sér ályktun þar sem fjallað var um viðbrögð lyfjageirans vegna dæma um lyfjaskort um heim allan. Bent er á að áhyggjur af lyfjaskorti fari vaxandi, en áréttað um leið að af hálfu lyfjaiðnaðarins sé leitað allra leiða til að draga úr áhrifum á sjúklinga.
„Ályktun EFPIA sýnir að lyfjaskortur er langt því frá séríslenskt vandamál. Hér á landi hefur verið lögð áhersla á bætt samstarf lyfjainnflytjenda, apóteka, viðeigandi stofnana og heilbrigðisstarfsfólks,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda á Íslandi, en Frumtök eru aðili að EFPIA.
Bent á leiðir til úrbóta
„Lyfjaskort verður að taka alvarlega og leita allra tiltækra leiða til að uppræta hann, enda getur hann í verstu tilvikum ógnað heilsu fólks. Lausnir getur verið að finna í framleiðslu- og aðfangakerfinu, en einnig í umbótum á umgjörð lyfjamála. Þar ríður á að vandað verði til verka við innleiðingu á breytingum, svo sem í frumvarpi til nýrra lyfjalaga sem væntanlega verður lagt fram á Alþingi í næsta mánuði,“ segir Jakob og bætir við að í þeim efnum hafi Frumtök bent á þó nokkra þætti sem betur mættu fara. „Við höfum talað fyrir einfaldara regluverki og þær ábendingar skila sér vonandi í frumvarpsvinnuna sem er fram undan á Alþingi, til þess að við fáum betur tryggt góða umgjörð lyfjamála hér á landi og unnið saman gegn lyfjaskorti.“
Í ályktun EFPIA segir að ástæður lyfjaskorts geti verið margar og samhangandi. Þar á meðal megi nefna vandamál sem upp komi í framleiðsluferli lyfjanna, sameiningu framleiðslustaða milli landa, ótilætluð áhrif reglna um verðlagsákvarðanir og útboð, sem og vandamál tengd aðföngum. „Iðnaðurinn leggur sig hins vegar sem fyrr fram um að tryggja apótekum og öðrum sem mega hafa milligöngu um afhendingu lyfja til almennings, áframhaldandi og nægt aðgengi að lyfjum, þannig að þörfum sjúklinga verði mætt.“
Fram kemur að framleiðslufyrirtæki lyfja, í samvinnu við Lyfjastofnun Evrópu (European Medicines Agency, EMA) og stjórnendur lyfjastofnana í álfunni, vinni markvisst að innleiðingu viðeigandi ferla til að greina skort og láta vita af honum. „Um er að ræða aðgerðir sem tryggja ættu öllum lyfjastofnunum á Evrópska efnahagssvæðinu sem bestar upplýsingar um allan fyrirséðan skort eða röskun á afhendingu lyfja.“
Nýta má gagnagrunna betur
EFPIA segir framleiðendur leggja áherslu á að allar mögulegar upplýsingar séu nýttar til að til að grafast fyrir um orsakir og ástæður skorts, þar með talda flöskuhálsa í framleiðsluferli lyfjanna. Meðal tillagna samtakanna um bætta upplýsingaöflun við eftirlit með skorti er að nýtt verði þau gögn sem vistuð er í gagnagrunnum tengdum Evróputilskipun um fölsuð lyf (Directive 2011/62/EU), sbr. gagnagrunn Lyfjaauðkennis hér á landi. Mögulega megi nýta þau gögn til að fá betri upplýsingar um birgðir sem eru til staðar í framleiðsluferlinu innan einstakra lands, og með því flýta fyrir greiningu á skorti og viðeigandi viðbrögðum. EFPIA hefur því hvatt til frekari viðræðna um notagildi gagnagrunnsins milli viðeigandi stofnana í hverju landi og lyfjabirgja. Um leið er áréttaður vilji til að beita öllum tiltækum ráðum til að auka vernd sjúklinga og stuðla að bættu almennu heilbrigði.
„Frumtök, eins og EFPIA, eru meðvituð um alvarleika málsins og hafa samúð með þeim sem skortur bitnar á. Við viljum leggjast á árar við að leysa þennan vanda á hvern þann hátt sem við getum og liður í því er að einfalda ferla og fækka þröskuldum við skráningu lyfja hér á landi,“ segir Jakob Falur.