Skip to main content

Í tilefni af nýlegri umfjöllun um verð lyfja í fjölmiðlum er rétt að minna á að samanburður á verði í ólíkum löndum borð við þann sem vitnað er til í nýrri umfjöllun Mbl.is getur verið bæði erfiður og villandi, líkt áframhaldandi umfjöllun Mbl.is um málið ber vitni um.

Í tilvitnaðri umfjöllun eru borin saman smásöluverð, en að baki þeim geta verið mjög ólíkar aðferðir við verðlagningu. Þannig er ekki virðisaukaskattur á lyfjum í öllum löndum, né heldur föst krónutöluálagning, líkt og hér er notuð, og það getur haft veruleg áhrif á samanburðinn.

Þá er ekki í öllum tilvikum borin saman sama vara, svo sem í tilviki kvíðalyfs sem sagt var 345% yfir miðgildisverði samanburðarlandanna. Umrætt lyf er ekki skráð hér á landi í samanburðarstærðinni, en á vef Medbelle segir að þegar slík aðstaða kemur upp sé notast við verð á næsta sambærilega lyfi og magneiningu í sölu. Hér á landi eru bara tvö slík og hvorugt með þær pakkningar í sölu sem vísað er til (1 mg x 8 stk.).

Á vef Lyfjagreiðslunefndar má sjá að álagning lyfja í smásölu er ákvörðuð með eftirfarandi hætti:

Verðlagning lyfseðilsskyldra og S-merktra lyfja. *Ofan á heildsöluverð og álagningu bætist virðisaukaskattur.

Eftirfarandi smásöluálagning gildir frá 1. janúar 2019:

Hámarks heildsöluverðSmásöluálagning
0 – 19.999 kr.11% + 1.179 kr.
20.000 – 99.999 kr.2% + 2.576 kr.
>100.000 kr.0,3% + 5.123 kr.

 

Hér myndi lyf sem kostar 150 kr. í heildsölu kosta 1.346 kr. með virðisaukaskatti í smásölu og verður þar til 897% munur á verði í heildsölu og smásölu með virðisaukaskatti. Í samanburðinum sem vitnað er til á vef Medbelle er til dæmis lyfið Alprazolam sem hér á landi kostar 153 kr. í heildsölu er á 1.673 kr. í smásölu. Þá er í sumum löndum, líkt og gert er hér, lagður virðisaukaskattur í efsta flokki á lyf, meðan að í öðrum, svo sem í Svíþjóð, eru lyf undanþegin virðisaukaskatti. Með öðrum orðum, þá er álagning á ódýr lyf hlutfallslega mikil en að sama skapi hlutfallslega lítil á dýrari lyf.

Hið opinbera stýrir markaðnum

„Það er hins vegar rétt sem lesa má úr samanburðinum, að verð, sérstaklega á samheitalyfjum, er oft yfir miðgildi lyfjaverðs í þeim löndum sem samanburðurinn náði til. Á þeim markaði kann að gæta áhrifa smæðar markaðarins hér heima og til marks um að aukin opnun og endurskoðun regluverks gæti komið að góða og skilað sér í lægra lyfjaverði. En það skiptir öllu að horfa á heildarmyndina. Er lyfjakostnaður á Íslandi sem hlutfall af heilbrigðisútgjöldum hærri en almennt gengur og gerist – eða lægri? Við erum í lægri kantinum, og samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2020 verða lyfjaútgjöldin 8,3% af heilbrigðisútgjöldunum, eitt lægsta hlutfall sem við höfum séð. En gegnumsneitt hefur þetta hlutfall hjá okkur verið um eða rétt neðan við 10%,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka.

Um leið benda Frumtök á, að hér verður að hafa í huga að íslenskum lyfjamarkaði er handstýrt af hálfu hins opinbera á öllum sviðum, þar á meðal með ákvörðunum um hámarksverð lyfja og kröfum um þjónustu að aðferðafræði við skráningu og markaðssetningu lyfja. Og að í ákvörðunum um hámarksverð frumlyfja hefur ýmist verið miðað við lægsta eða meðalverð lyfja á Norðurlöndum, sem við berum okkur saman við.

„Yfirferð á töflu Medbell virðist enda sýna að Ísland er oft á svipuðu róli og þau Evrópulönd sem við höfum miðað okkur við í fráviki frá miðgildi lyfjaverðs í samanburðarlöndunum,“ segir Jakob Falur.

Frumtök hafa lagt til við heilbrigðisyfirvöld leiðir sem ýtt gætu undir vilja lyfjaframleiðenda til að skrá lyf á Íslandi og þar með hjálpað til við baráttu gegn lyfjaskorti, sem nokkuð hefur borið á, og komið á framfæri ábendingum um hvernig megi einfalda regluverk og auka virkni á markaðnum.  Samtökin vilja í því sambandi einnig benda á skýrslu Hagfræðistofnunar um lyfjamarkaðinn sem út kom í maí á þessu ári og á rannsókn sem ráðgjafarfyrirtækið Intellecon vann að beiðni Frumtaka um verðlagningu heildsölulyfja á Íslandi síðasta haust.