Af 173 nýjum lyfjum sem fengu markaðsleyfi í Evrópu á árunum 2020 til 2023 hafa 59, eða 34 prósent, formlega verið tekin í notkun á Íslandi. Þýskaland hefur tekið flest lyf í notkun, 156 eða 90 prósent. Ísland er líka enn töluvert undir meðaltali Evrópulanda, sem er 46 prósent.
Þetta má lesa úr nýrri samantekt EFPIA, samtaka frumlyfjaframleiðenda í Evrópu, um markaðssetningu nýrra lyfja. Í árlegri skýrslu samtakanna eru lönd borin saman eftir því hversu mörg lyf hafa fengið greiðsluþátttöku í hverju landi fyrir sig af þeim sem fengið hafa markaðsleyfi Lyfjastofnunar Evrópu á fjögurra ára tímabili. Miðað er við stöðuna í byrjun þessa árs. Sjá má á myndinni hér fyrir neðan að á Íslandi hafa 20 af þeim nýju lyfjum sem fengu markaðsleyfi 2020 verið notuð, annað hvort fengið leyfisskylda greiðsluþátttöku eða notuð á undanþágu, 21 af þeim lyfjum sem fengu leyfi 2021, 15 af listanum 2022 og þrjú lyf sem fengu markaðsleyfi 2023.

Ísland rekur sem fyrr lestina í upptöku nýrra lyfja þegar horft er til Norðurlanda, en af þeim er bara Noregur með Íslandi undir Evrópumeðaltalinu. Ísland er á svipuðum slóðum og verið hefur í samanburðinum, en Noregur fallið niður listann síðustu ár. Af Norðurlöndum stendur Danmörk fremst í notkun nýrra lyfja, í níunda sæti listans. Finnland og Svíþjóð eru í 16. og 17. sæti, Noregur í 21. sæti og Ísland í 23. sæti. Efstu þrjú sætin verma Þýskaland, Ítalía og Austurríki, með 90 til 82 prósent upptöku nýrra lyfja.

„Við myndum vilja standa miklu betur enda ótvíræður þjóðhagslegur ávinningur af því að styðja fólk til heilsu og betra lífs með skilvirkustu meðferðum sem í boði eru hverju sinni,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka. Þó að hér hafi margt áunnist síðustu ár sé enn verk að vinna til að tryggja fólki sem greiðastan aðgang að nýjustu og bestu lyfjum. „Við erum enn langt frá því að vera meðal þeirra þjóða sem fremst standa.“
Jakob segir orsakir þess að hér gengur hægar að innleiða ný lyf þekktar. „Okkur finnst oft skorta á að tekið sé tillit til smæðar markaðarins,“ segir hann. Öll ákvarðanataka varðandi verðlagningu lyfja er á höndum hins opinbera, en Frumtök hafa meðal annars kallað eftir því að lyfjaverðstefnan verði einfölduð þannig að samþykkt hámarksverð allra lyfja í heildsölu lúti sömu forsendum og að við ákvörðun um hámarksverð í heildsölu. Eða með öðrum orðum, að almennt verði miðað við meðalverð á Norðurlöndum í stað lægsta verðs, líkt og raunin hefur verið um árabil varðandi sjúkrahúslyf.
WAIT er skammstöfun og stendur fyrir Waiting to Access Innovative Therapies, enskýrsla EFPIA byggir á upplýsingum frá aðildarfélögum samtakanna og hefur að markmiði að leiða fram mun milli landa hvað varðar aðgengi að lyfjum og hversu langan tíma tekur að fá greiðsluþátttöku ríkisins.
Rétt er að taka fram að þó lyf sé ekki formlega markaðssett hér á landi getur það verið komið í einhverja notkun. Reynt er að taka tillit til þess við samantekt þessarar tölfræði.
Tilkynningu EFPIA um útkomu skýrslunnar er að finna HÉR, en opna má PDF-skjal með helstu niðurstöðum HÉR.