Ástæða er til að vara við mögulegum hliðaráhrifum vanhugsaðra áætlana hins opinbera um aukið alþjóðlegt samstarf um útboð lyfjakaupa. Ekki hefur farið fram nein greining á þeim áhrifum sem slíkt samstarf kann að hafa á íslensk fyrirtæki, samkeppnisumhverfi þeirra og framtíðarþjónustu við íslenskt heilbrigðiskerfi.
Frá því var greint fyrir helgi að velferðarráðuneytið geri ráð fyrir að látið verði reyna alþjóðlegt samstarf um útboð lyfjakaupa á næstu mánuðum. Nýverið voru gerðar breytingar á lögum um opinber innkaup sem sagðar eru auka möguleika Landspítalans á að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um lyfjakaup, svo sem í samvinnu við sjúkrahús á einhverju Norðurlanda.
„Frumtök gerðu hvað þau gátu til að vekja á því athygli á meðan unnið var að breytingu laganna að fara yrði fram greining á mögulegum áhrifum breytinganna,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda, en samtökin voru meðal þeirra sem sendu inn athugasemdir. „Illu heilli var ekkert tillit tekið til ábendinga okkar.“
Samtökin hafa bent á að upp sé komin gjörbreytt staða fyrir lyfjafyrirtæki sem starfað hafa á íslenskum markaði ef þau eru skyndilega komin í samkeppni á alþjóðlegum markaði, en fyrirtæki sem starfi fyrir utan landsteinana hafi enga skyldu til að veita aðra þjónustu á íslenskum markaði.
„Innlendi markaðurinn og þá sér í lagi Landspítalinn hefur getað treyst á að fá hjá aðildarfyrirtækjum Frumtaka alla almenna þjónustu varðandi lyfjakaup og eftirfylgni með þeim, svo sem lyfjagát, fræðslu til heilbrigðisstarfsfólks, leiðbeiningar um notkun lyfja og svör við fyrirspurnum, svo sem vegna undanþága og aukaverkana, auk þess sem brugðist hefur verið við beiðnum um neyðarsendingar,“ segir Jakob Falur. „Leiða má að því líkum að þessi þjónusta verði í uppnámi hér á landi og fjölda starfa vel menntaðs starfsfólks verði ógnað verði bein innkaup Landspítalans erlendis frá að veruleika.“
Gangi áætlanir hins opinbera eftir verður íslenskum fyrirtækjum gert að keppa við stór erlend fyrirtæki, en í samhengi við Evrópu eru íslensku fyrirtækin afar smá. Þetta segir Jakob Falur kalla á algjöra endurskilgreiningu á þeim markaði sem íslensku fyrirtækin vinna með vísan til samkeppnislaga. „Þá er ekki hægt að meta markaðshlutdeild innlendra fyrirtækja út frá íslenska markaðinum, heldur þeim markaði eða mörkuðum þar sem þátttakendur í þessum erlendu útboðum starfa. Í þeim samanburði eru íslensku fyrirtækin hvorki lítil né meðalstór heldur fullkomin örfyrirtæki.“ Ákvæði laganna sem hvetji til þátttöku í alþjóðlegum útboðum gangi því gegn markmiðum sem sett séu fram í 53. grein laganna um að auka samkeppni með því að hvetja kaupendur til að skipta niður stórum samningum þannig að þeir henti betur getu lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
Að mati Frumtaka er vandséð að nokkuð yrði því til fyrirstöðu að öll innlend fyrirtæki sem þjónusta íslenska heilbrigðiskerfið sameinuðust. Með því gætu þau talist með kannski 1,5% hlutdeild á nýjum markaði. „Mögulega yrði afleiðingin því veruleg, ef ekki algjör samþjöppun á íslenska markaðinum og niðurstaðan mun minni samkeppni en áður, fyrir utan hin erlendu útboð,“ segir Jakob Falur, sem hvetur stjórnvöld til að stíga varlega til jarðar þegar kemur að breytingum sem ekki liggur fyrir hvaða áhrif muni hafa. „Við leggjumst að sjálfsögðu ekki gegn því að heilbrigðiskerfið reyni að fá sín aðföng á sem hagkvæmastan hátt, en það þarf að liggja fyrir hverju breytt verklag breytir. Við höfum kallað eftir ítarlegri greiningu á áhrifum þessara breytinga og vonumst enn til þess að á þær óskir verði hlustað“.