Skip to main content

Þjónustufyrirtæki á íslenskum lyfjamarkaði þurfa að uppfylla margvíslegar kröfur um aðgengi og meðferð lyfja sem fengin eru til landsins frá alþjóðlegum lyfjaframleiðendum. Greiðandi þjónustunnar er oftar en ekki íslenska ríkið, fyrir hönd heilbrigðiskerfisins, en það setur einnig reglur um lyfjamarkaðinn, ákveður hámarksverð og setur í lögum skilmála á borð við að ávallt eigi að vera hér aðgengi að nauðsynlegum lyfjum.

Þó það sé fátítt þá getur komið fyrir að utanaðkomandi aðstæður raski þjónustunni, líkt og fjallað var um í Morgunblaðinu fyrir helgi. Fram kom að um skeið hafi ákveðið skjaldkirtilslyf verið ófáanlegt hjá framleiðanda, en þau eru lífsnauðsynleg þeim sem á þeim þurfa að halda. Lyfin eru hins vegar á leiðinni sjóleiðina og sá vandi að leysast, en ástæða flutningsmátans endurspeglar hversu vandmeðfarin lyf geta verið og þjónusta við þau sérhæfð. Þurfi að sækja lyf með hraði eru þau stundum send í flugi, en fram kom í máli Gunnar Helgadóttur, framkvæmdastjóra Vistor, að í flugi geti komið upp vandamál með hitasveiflur og það hafi oft skapað vandamál. Ekki megi selja lyf þegar hitastigið á þeim hefur ekki verið rétt allan tímann.

„Til að ábyrgjast megi fulla virkni þeirra lyfja sem hér eru í boði þurfa þjónustufyrirtæki að uppfylla strangar kröfur bæði af hálfu framleiðenda þeirra og hins opinbera, sem greiðir fyrir lyfin að miklu leyti,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka. „Verkefnin sem fylgja markaðssetningu, skráningu og dreifingu lyfja eru umfangsmeiri en ætla mætti í fljótu bragði. Fyrirtækin taka að sér fjölþætta, lögbundna skráningu lyfjanna og tryggja rekjanleika þeirra, auk þess að flytja þau inn og sannreyna gæði þeirra.“ Jakob segir þjónustufyrirækin líka sjá um að uppfylla skilyrði um merkingar lyfja á íslensku, gæðaeftirlit, lyfjagát og tryggja að merkingarnar standist kröfur laga og reglna, auk þess að sjá um birgðahald og birgðastýringu með tilheyrandi áhættu vegna sveiflna í eftirspurn og á gjaldmiðlum.

Í framhaldsfrétt Morgunblaðsins síðastliðinn föstudag er vitnað til svars Lyfjastofnunar þar sem fram kemur að lyfjaskortur sé ekki séríslenskt vandamál. Svipuð staða komi einnig upp í öðrum löndum og af margvíslegum ástæðum, svo sem vegna vandamála í framleiðsluferli, aukinnar eftirspurnar, vandamála sem upp komi í innflutningi, tafa á sendingum og fleiru. Er þá athugað hvort lyf sem tímabundið fást ekki send hingað séu til hjá einstökum apótekum eða heilbrigðisstofnunum og ef allt um þrýtur og ekki hægt að nota önnur lyf sem markaðssett eru á Íslandi, þá tekur svokallað undanþágukerfi við. Í slíkum tilvikum geta læknar sótt um leyfi til Lyfjastofnunar og óskað eftir að nota lyf sem ekki eru á markaði hér. Fáist leyfi er viðkomandi lyf notað á ábyrgð læknisins sem eftir því kallar og leitað til þjónustufyrirtækja hér á landi til að útvega það.