EFPIA, samtök frumlyfjaframleiðenda í Evrópu, hafa gefið út hvítbók með tillögum svo tryggja megi sem kostur er skilvirkni og sjálfbærni í opinberum innkaupum á lyfjum í löndum á evrópska efnahagssvæðinu. Um er að ræða tíu tillögur sem ættu að geta betrumbætt umgjörð opinberra innkaupa á lyfjum og stuðlað að skilvirkari og sjálfbærum innkaupaferlum í löndunum.
„Hvítbókin, sem miðar við þennan sértæka markað, er innlegg í víðfeðmari umræðu um virkni innkauparegla ESB og þá sérstaklega í tengslum við sveigjanleika og vaxtarmarkmið sambandsins,“ sagði Nathalie Moll, framkvæmdastjóri EFPIA, þegar hún kynnti hvítbók EFPIA með tillögum samtakanna til að auka skilvirkni opinberra lyfjakaupa í Evrópusambandinu. „Taki framkvæmdastjórn ESB mið af tillögum okkar um bestu framkvæmd, með stuðningi stjórnvalda í hverju landi, standa vonir okkar til þess að ekki einungis verði áhrif á formleg innkaupaferli jákvæð, heldur líka á óformleg útboðsferli sem eru í auknum mæli notuð utan marka Evróputilskipunar 2014/24/EU“.
Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, segir þessa nýjustu hvítbók EFPIA ánægjulegt framtak, því áreiðanlegir verkferlar og skýr markmið við opinber innkaup skipti höfuðmáli þegar komi að því að tryggja aðgengi að nýjustu og bestu lyfjum.
„Tillögunum er ætlað að bæta framkvæmd opinberra lyfjainnkaupa og tryggja sem kostur er að dregið verði úr tvíverknaði og komið í veg fyrir óskilvirkni og óþarft birgðahald með því að miðað er við aðstæður á hverju svæði fyrir sig. Þannig er til dæmist lagt upp með að sameiginleg innkaup landa miðist við aðstæður þar sem upp kemur alvarleg ógn við almennt heilsufar á meðan almennt sé miðað við aðstæður og þarfir á hverjum stað,“ segir Jakob Falur.
Hvítbókin var gefin út í kjölfar könnunar á meðal aðildarfélaga EFPIA þar sem rýnd var virkni tilskipunar Evrópusambandsins um opinber innkaup og hvar skóinn kreppti við framkvæmd hennar. Hvítbókin inniheldur 10 sértækar tillögur sem tryggja eiga skilvirkni og sjálfbærni innkaupaaðferða um leið og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er hvött til að útfæra og miðla leiðbeiningum um bestu starfshætti við framkvæmdina.
Frétt EFPIA um nýútgefnar leiðbeiningar má nálgast hér: https://efpia.eu/news-events/the-efpia-view/statements-press-releases/efpia-publishes-recommendations-on-medicine-procurement-across-the-eu/