Skip to main content

LMI, samtök lyfjafyrirtækja í Noregi, hafa birt á vef sínum grein þar sem fjallað er um áhrif þess að Noregur, eitt ríkasta land heims, krefst þess að fá keypt lyf á lægsta mögulega verði. Heilbrigðisyfirvöld í Noregi eru sögð hafna verðtilboðum sem samþykkt hafa verið í löndum sem búa við sambærileg efnahagsleg skilyrði og krefjast óraunhæfra afslátta frá innkaupsverði lyfja.

Fram kemur í samantekt LMI að þegar upp er staðið séu það sjúklingar sem beri tjón af nálgun norskra stjórnvalda því afleiðing stefnunnar sé að þeir verði seinni til að njóta nýjustu úrræða í lyfjameðferð, fái þeir notið þeirra yfir höfuð, á meðan sjúklingar í nágrannalöndum Noregs gefist kostur á nýjustu og bestu meðferðarúrræðum.

„Sú staðreynd að Noregur er seinni til að innleiða nýja meðferð en önnur lönd sem við viljum bera okkur saman við hefur verið staðfest í þó nokkrum greiningum, og sömuleiðis í mati ráðgjafafyrirtækisins Proba á kerfi innleiðingar nýrra meðferðarúrræða,“ er í greininni haft eftir Karoline Knutsen, ráðgjafa LMI á sviði markaðsmála.

Í samantekinni er vísað til talna um að nú sé fleiri samningum um lyfjakaup hafnað en áður, 41% miðað við 34% árið 2020 og að einna helst séu það úrræði við sjaldgæfum sjúkdómum og krabbameinum sem sé hafnað. Í 95% tilvikanna sé það verð lyfjanna sem sagt er ástæða þess að þeim sé hafnað.

Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, segir þessa þróun mála í Noregi áhyggjuefni fyrir Ísland og íslenskt heilbrigðiskerfi. „Horft er til verðs í nokkrum löndum þegar teknar eru ákvarðanir um verð og greiðsluþátttöku lyfja hér á landi og það er yfirleitt verðið í Noregi sem er lægst – og oft langlægst. Sú verðstefna hefur því í mörgun tilvikum bein áhrif á markaðssetningu lyfja á okkar örsmáa markaði, sem má vart við hindrunum sem þessum til að tryggja öruggt framboð,“ segir hann.

Um þessa stöðu var meðal annars fjallað í umsögn Frumtaka um lyfjaverðstefnu í Samráðsgátt stjórnvalda, líkt og greint var frá í frétt á vef Frumtaka í apríl í fyrra.