Skip to main content

Evrópusamtök frumlyfjaframleiðenda, EFPIA, segja þrjú höfuðatriði standa upp úr við framleiðslu á bóluefnum gegn COVID-19. Áherslu á notkun bestu fáanlegu þekkingar og tækni, að öryggi sé tryggt og að dreifing um heim allan gangi sem skjótast fyrir sig.

„Líklega hefði enginn trúað því fyrir rúmu ári síðan, þegar kórónuveiran var fyrst að bæra á sér, að við yrðum á þessum tíma komin með bóluefni í framleiðslu, hvað þá að þau yrðu fleiri en eitt. Til hefur þurft samhent átak og samstarf allra hlutaðeigandi og endurspeglar virði þeirrar þekkingar og tækni sem lyfjageirinn hefur yfir að ráða,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda á Íslandi.

„Stórkostlegur árangur þessara mikilvægu stoðfyrirtækja heilbrigðiskerfa heimsins alls, vekur manni bjartsýni hvað varðar áskoranir framtíðar og von í baráttunni við skæða sjúkdóma.“

NÝJASTA TÆKNI

Í kynningarmyndbandi sem samtökin hafa búið til og sjá má hér að neðan kemur fram að aðildarfyrirtæki EFPIA styðjist við bestu vísindaþekkingu og nýsköpun í baráttunni við Covid-19. Bóluefni eru nú þegar komin í notkun og önnur á lokastigi áður en þau geta farið í dreifingu og notkun. „Notast er við nýjar aðferðir og tækni til að framleiða og dreifa bóluefnum til þeirra sem þurfa, á hraða sem ekki hefur áður sést,“ segir í myndbandinu.

ÖRYGGIÐ Í FYRIRRÚMI

Þá er sem fyrr lögð höfuðáhersla á öryggi framleiðslunnar. „Bóluefni gegn Covid-19 þurfa að undirgangast sömu ströngu rannsóknir, samþykktarferli og endurskoðun Lyfjastofunar Evrópu og annarra eftirlitsstofnana víða um heim og öll önnur bóluefni þurfa að undirgangast. Við gefum engan afslátt á öryggismálum,“ segir í myndbandinu.

DREIFING UM ALLAN HEIM

Fram kemur að frumlyfjaframleiðendur innan EFPIA starfi með Evrópustofnunum og ríkisstjórnum til að tryggja aðgang að nýjum bóluefnum á viðráðanlegu verði. Fyrirtækin hafi meira að segja hafið framleiðslu á bóluefnum gegn COVID-19 áður fyrir hefur legið samþykki fyrir notkun þeirra. „Þessu fylgir áhætta fyrir framleiðendur lyfjanna, því fáist ekki leyfi er ekki hægt að nota bóluefnið,“ segir EFPIA. Áhættan er engu að síður sögð ásættanleg megi hún verða til að tryggja að bóluefnin séu tilbúin til dreifingar og góðra nota eins fljótt og auðið er. „Við unnum okkur ekki hvíldar fyrr en komin eru bóluefni gegn COVID-19 handa öllum,“ segja framleiðendur innan raða EFPIA.

Myndbandið má einnig sjá á Twitter-reikningi átaksverkefnisins Vaccines Europe EFPIA og aðildarfyrirtæki samtakanna standa að.