Skip to main content
ATMP conference Reykjavik 13 March 2023

Hans Tómas Björnsson, prófessor og yfirlæknir sameindaerfðafræðideildar, Landspítala.

Rannsóknir sem unnar hafa verið á erfðamengi Íslendinga fela í sér möguleika til upptöku og rannsókna á byltingarkenndum nýjum lyfjum og meðferðum, ATMP gena- og frumumeðferðum. Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Hans Tómasar Björnssonar, prófessors og yfirlæknis sameindaerfðafræðideildar Landspítala, á ráðstefnu Frumtaka, heilbrigðisráðuneytisins og Landspítala um um þau tækifæri og áskoranir sem felast í gena- og frumumeðferðum og fram fór í Reykjavík mánudaginn 13. mars síðastliðinn.

Um leið kom fram að áskoranir væru í veginum, því til þess að grípa þessi tækifæri þyrfti að bæta hér innviði til rannsókna, auk regluverks og umgjarðar tengdri ATMP lyfjameðferð.

ATMP conference Reykjavik 13 March 2023

Fjölmenni var á ráðstefnu Frumtaka, heilbrigðisráðuneytis og Landspítala, á Grand hótel Reykjavík, 13. mars 2023.

Húsfyllir var í nýjum ráðstefnusal á fjórðu hæð Grand hótel Reykjavíkur þar sem ráðstefnan fór fram. Meðferðinni hefur verið líkt við byltingu í læknavísindum, en á ráðstefnunni fengu gestir að fræðast um þá möguleika sem læknavísindin standa frammi fyrir,, umgjörðina sem mótuð hefur verið um þessi lyf í Noregi og Svíþjóð, leiðirnar til að takast á við mikinn upphafskostnað við lyfin og kostnaðurinn borinn saman við mögulega forðun kostnaðar sem annars fælist í langtíma læknismeðferð og umönnun.

Í pallborði í fundarlok var líka farið yfir möguleika Íslands og stöðu tengda þessum nýju lyfjum og hvort innviðir væru til staðar sem þurfa til að taka þau upp og jafnvel taka þátt í þróun þeirra.

ATMP conference Reykjavik 13 March 2023

Gestum gafst kostur á að spyrja spurninga og ræða við fyrirlesara að erindum loknum.

Líflegar umræður fóru fram undir stjórn Runólfs Pálssonar, forstjóra Landspítala. Í þeim tóku þátt, auk frummælenda á ráðstefnunni, alþingismennirnir Haraldur Benediktsson, fyrsti varaformaður fjárlaganefndar, og Líneik Anna Sævarsdóttir, formaður velferðarnefndar.

Líneik benti á að um leið og  tæknin væri ný og spennandi og fæli í sér mikla möguleika, þá væri hér mikið verk óunnið, svo sem við mótun stefnu og verklags. Hún taldi ljóst að hér væri þörf á nánara samstarfi við nágrannaþjóðir okkar, því vegna smæðar sinnar kæmi Ísland ekki til með að draga vagninn í upptöku ATMP lyfja og meðferðar. „Við þurfum að fara í stefnumótun og það er hlutverk okkar Haraldar [Benediktssonar] að taka þessa umræðu aftur inn í þingið,“ sagði hún.

ATMP conference Reykjavik 13 March 2023

Anna Lilja Gunnarsdóttir og Jakob Falur Garðarsson gera klárt.

Eftir að ráðstefnan hafði verið sett af Jakob Fal Garðarssyni, framkvæmdastjóra Frumtaka og Anna Lilja Gunnarsdóttir, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneyti tekið við sem ráðstefnustjóri, byrjuðu erindi á kynningu þeirra Einars Andreassen, yfirmanns heilsuhagfræði og greiningar, og Helgu Haugom Olsen, læknis, frá Lyfjastofnun Noregs. Erindi þeirra fór fram um fjarfundarbúnað, en þau fóru meðal annars yfir nálgun stofnunar sinnar við mat og kostnaðargreiningu lyfja, þar á meðal ATMP, við sjaldgæfum og alvarlegum sjúkdómum.

Þá fjallaði Hans Tómas Björnsson um reynslu sína af notkun ATMP meðferða og nefndi dæmi um allt að því kraftaverkalíka virkni slíkrar meðferðar í sumum tilvikum, líkt og þegar börn með vöðvaslenssjúkdóm (SMA, eða spinal muscular atrophy) sem annars hefðu verið lömuð og jafnvel bara með getu til að hreyfa augun, gætu nú hlaupið um og leikið sér eins og önnur börn.

ATMP conference Reykjavik 13 March 2023

Kristina Levan verkefnastjóri við ATMP Centrum við Sahlgrenska háskólasjúkrahúsið.

Kristina Levan, líffræðingur og verkefnastjóri við ATMP-miðstöðina við Sahlgrenska háskólasjúkrahúsið í Gautaborg, kynnti svo umgjörð og upptöku ATMP lyfja í Svíþjóð og hvernig þar hafi verið brugðist við áskorunum tengdum mati og upptöku þessara nýju meðferðarúrræða.

ATMP conference Reykjavik 13 March 2023

Tina Taube, frá EFPIA, ræddi kostnað og umgjörð rannsókna og þróunar.

Að lokum fjallaði Tina Taube, framkvæmdastjóri markaða og framleiðsluleiða EFPIA, Evrópusamtökum lyfjaframleiðenda, um leiðir til að mæta háum upphafskostnaði við ATMP lyfjameðferð og mikilvægi þess að rannsóknir og þróun á sviði þessara meðferða færi áfram fram innan Evrópu, en til þess þyrfti bæði stuðning og samstarf um aðlögun regluverks.

Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, stýrði svo umræðum þar sem gestum ráðstefnunnar gafst kostur á að ræða þessi nýju lyf og hvernig hægt væri að stuðla að sem skjótastri upptöku þeirra hér á landi.

Hans Tómas Björnsson og Jakob Falur Garðarsson mættu einnig í Kastljós RÚV í vikunni eftir að ráðstefnan fór fram og ræddu þar bæði virkni þessara nýju úrræða og mat á kostnaði við þau. Viðtalið má nálgast með því að smella á myndina hér fyrir neðan og opnast það þá í nýjum glugga. Á eftir fylgja svo fleiri myndir frá ráðstefnunni.

Hans Tómas Björnsson Bergsteinn Sigurðsson Jakob Falur Garðarsson

Hans Tómas Björnsson, prófessor og yfirlæknir sameindaerfðafræðideildar Landspítala (t.v.) og Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka (t.h.) voru gestir Bergsteins Sigurðssonar í Kastljósi RÚV fimmtudaginn 15. mars 2023. Þar ræddu þeir ATMP meðferðina og nýafstaðna ráðstefnu. Viðtalið opnast ef smellt er á myndina. Mynd/Skjáskot RÚV

ATMP conference Reykjavik 13 March 2023

Umræður í kaffihléi á fjölmennri ráðstefnu Frumtaka, heilbrigðisráðuneytis og Landspítala, á Grand hótel Reykjavík, 13. mars 2023.

ATMP conference Reykjavik 13 March 2023

Frummælendur og pallborðsgestir á ráðstefnu Frumtaka, heilbrigðisráðuneytis og Landspítala, á Grand hótel Reykjavík, 13. mars 2023. Jakob Falur Garðarsson, Anna Lilja Gunnarsdóttir, Runólfur Pálsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Haraldur Benedikts­son, Tina Taube, Kristina Levan, og Hans Tómas Björnsson.

ATMP conference Reykjavik 13 March 2023

Einar Andreassen, director of Health Economics and Analysis, og Helga Haugom Olsen, MD PHD, the Norwegian Medicines Agency, fluttu erindi með aðstoð fjarfundarbúnaðar.

ATMP conference Reykjavik 13 March 2023

Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, Tina Taube, frá EFPIA, og Kristina Levan verkefnastjóri við ATMP Centrum við Sahlgrenska háskólasjúkrahúsið.

ATMP conference Reykjavik 13 March 2023

Umræður að hefjast eftir áhugaverð erindi.