Skip to main content

Ný stjórn Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda á Íslandi, er einvörðungu skipuð konum.

Ný stjórn var kosin á aðalfundi Frumtaka sem fór fram 18. mars sl. Fyrsti fundur nýrrar stjórnar verður eftir páska og þá skiptir stjórnin með sér verkum og velur formann.

Í nýrri stjórn Frumtaka eiga sæti Andrea Ingimundardóttir sem kemur ný inn, Áslaug Guðný Jónsdóttir, Ragnhildur Reynisdóttir, Sólveig Björk Einarsdóttir og Þyri E. Þorsteinsdóttir, en úr stjórn gengur Davíð Ingason. Varamenn í stjórn eru Dagmar Ýr Sigurjónsdóttir og Guðfinna Kristófersdóttir.

Frumtök eru 15 ára um þessar mundir og létu í tilefni af því setja saman nokkur kynningarmyndbönd þar sem kynnt hefur verið til sögunnar fólkið á bak við Frumtök, fólkið sem starfar fyrir hönd lyfjafyrirtækjanna hér á landi. Eftir aðalfundinn var sýnt nýtt myndband í röðinni „Fólkið okkar“ sem nefnist „Sagan öll“.

Í myndbandinu, sem sjá má hér að neðan, er á einfaldan hátt lýst ferlinu sem liggur að baki því að rannsaka, þróa og koma nýju lyfi á markað. „Þetta ferli er í senn bæði alþjóðlegt og flókið, en algjör forsenda þess að heilbrigðiskerfið þróist fram á við, með aðgengi að bestu fáanlegu lyfjameðferðum hverju sinni,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka.

Myndböndin öll, þar sem staldrað er við og fólki gefinn kostur á að kynnast aðeins „fólkinu okkar“,  má svo sjá hér á síðunni.

Stjórn og framkvæmdastjóri Frumtaka

Þyri E. Þorsteinsdóttir, Dagmar Ýr Sigurjónsdóttir, Áslaug Guðný Jónsdóttir, Jakob Falur Garðarsson framkvæmdastjóri Frumtaka, Ragnhildur Reynisdóttir, Guðfinna Kristófersdóttir, Sólveig Björk Einarsdóttir og Andrea Ingimundardóttir.