Skip to main content

samsett myndFrumtök deila áhyggjum sem Lyfjastofnun og fleiri hafa lýst af fjölgun undanþágulyfja. Í síðasta tölublaði Læknablaðsins er lýst hvernig undanþágulyfjum hefur hér fjölgað síðustu ár og að stór hluti lyfjanna séu þau sömu ár eftir ár. Lítill hluti sé vegna lyfjaskorts.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, hefur sagt undanþágulyf vaxandi vandamál og að óskandi væri að fleiri lyf væru markaðssett hér á landi. Í viðtali við Morgunblaðið 18. september bendir hún á að mörg lyfjanna hafi hér markaðsleyfi en séu ekki markaðssett. Markaðsleyfishafar setji fyrir sig verð og áletranir, en gerðar eru kröfur um merkingar á íslensku og svo fylgir markaðssetningu skylda til birgðahalds. Þessu fylgir kostnaður á litlum markaði.

Markaðssetning ekki sjálfsögð

Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, segir Frumtök ítrekað hafa bent á þróunina og birt árlega fréttir þar sem borin er saman markaðssetning lyfja í Evrópu. „Það er því miður staðreynd að lyf eru síður og síðar markaðssett á Íslandi en í löndunum í kringum okkur. Á sama tíma sjáum við að fjöldi lyfja í þessu undanþágukerfi hefur vaxið gríðarlega mikið á undanförnum árum,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið 19. september.

„Mér liggur við að segja að rangir hvatar séu í kerfinu í dag og undanþágukerfið er ógegnsætt og algert svarthol. Mikilvægt er að finna svör við því hvers vegna ný lyf eru ekki markaðssett í jafnríkum mæli og við myndum öll vilja sjá. Það er mikilvægt fyrir heilbrigðiskerfið í heild sinni, fyrir öryggi sjúklinga og um leið mikilvægt bæði fyrir fyrirtækin og Lyfjastofnun.“

Um leið bendir Jakob á að ekki sé sjálfsagt að lyf séu markaðssett hér á landi.

„Til þess að lyf séu markaðssett á þessum litla örmarkaði, sem íslenski markaðurinn sannarlega er, þurfum við ákveðinn stöðugleika, gegnsæi og tiltölulega einfalda umgjörð á markaðnum.“

Þá tekur hann undir með forstjóra Lyfjastofnunar að stefna stjórnvalda í ákvörðunum um verð lyfjanna sé hindrun á markaðnum.

„Lyfjastofnun bendir réttilega á að svo virðist sem verðið sé hindrun á íslenska markaðnum og hafi verið sú hindrun sem hafi gert það að verkum að undanþágukerfið hafi farið vaxandi. Rétt er að halda því til haga að verðið er ekki frjálst. Verðið er ákveðið af stjórnvöldum. Við sækjum um verð til Lyfjastofnunar og stofnunin heimilar hæsta samþykkta verð á íslenska markaðnum á grundvelli laga og reglna. Á undanförnum árum hefur verið horft til þess að samþykkja eingöngu lægsta verð Norðurlandanna fyrir ný sjúkrahúslyf. Á þessum örmarkaði sem Ísland er hefur þessi krafa augljóslega gert það að verkum að lyf koma síður inn á markaðinn okkar en leita þá mögulega í undanþágukerfið,“ útskýrir Jakob í blaðinu.

Tilkostnaður hlutfallslega meiri hér

Um málið var líka fjallað í kvöldfréttatíma Útvarps 18. september og í Speglinum meðal annars rætt við Sigurbjörgu Sæunni Guðmundsdóttur, formann Lyfjafræðingafélags Íslands. Hún bendir á að 50 algengustu undanþágulyfin sjáist ár eftir ár og séu lyf sem betur færi að væru markaðssett á Íslandi. Þar skipti mestu máli hvað Ísland sé pínulítið markaðssvæði í samanburði við stærri þjóðir og tilkostnaður því hlutfallslega miklu meiri við skráningu hér en á milljónamörkuðum.

Sigurbjörg bendir á að hjálpað gæti að taka upp rafræna fylgiseðla og láta af kröfu um íslenska pappíra með hverri einingu. Þá séu reglur stjórnvalda um verðlagningu þannig að lyfjafyrirtækin skorti hvata til markaðssetningar.

„Hvatinn myndi vera frjálsara verð. Ég veit að það kemur ekki vel við neytendur að verðið væri frjálsara, en að minnsta kosti myndi þá lyfið vera fáanlegt,“ sagði hún í Speglinum.