„Við sýnum því auðvitað skilning að það sé uppi aðhaldskrafa núna en þá væri nær að nálgast viðfangsefnið með því að ræða þá lyfjaflokka sem hafa valdið mestu hækkununum í stað þess að setja markaðinn í háaloft,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, í viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.
Blaðið fjallar í ítarlegri fréttaskýringu um fyrirhugaða reglugerð um verðlagningu og greiðsluþátttöku lyfja sem valdið hefur titringi innan lyfjageirans hér á landi. Fram kemur í umfjölluninni að aðilar á lyfjamarkaði hér líki áhrifum reglugerðardraga heilbrigðisráðherra við jarðskjálfta. Fyrirhugaðar breytingar séu til þess fallnar að fæla framleiðendur frá því að markaðssetja lyf sín hér á landi. Þá gæti komið til þess að framleiðendur hugi að því að draga til baka skráningar lyfja sem þegar eru hér á markaði. Reglugerðardrögin feli í sér kaldar kveðjur í kjölfar heimsfaraldurs Covid-19.
Horfið frá sæmilegri sátt
Í greininni er rætt við Jakob Fal og Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ). Bent er á að ný heildarlöggjöf um lyf taki gildi um áramót og að undanfarnar vikur hafi birst í samráðsgátt ríkisstjórnarinnar drög að reglugerðum sem nauðsynlega þurfi að setja samhliða gildistöku laganna.
Um leið er bent á þá staðreynt að hið opinbera hafi um árabil stýrt verðlagningu lyfja. „Það gefur auga leið að í gegnum tíðina hafa hið opinbera og lyfjafyrirtæki ekki endilega verið sammála um hvað sé ásættanlegt heildarverð. Ríkið vill, eðli málsins samkvæmt, fá lyfin á sem hagstæðustu verði meðan söluaðilar vilja fá eitthvað fyrir sinn snúð. Sæmileg sátt hefur hins vegar verið í þessum efnum undanfarin ár eftir að lending náðist milli aðila. Fyrirhuguð reglugerð hverfur frá því fyrirkomulagi í veigamiklum atriðum,“ segir þar.
„Þetta er verulegt áhyggjuefni þeirra sem eru að þjónusta þennan markað. Ef fram fer sem horfir mun þetta hafa alvarleg áhrif á framboð lyfja á Íslandi,“ er haft eftir Jakobi Fal. Bent er á að í fjölda landa ráðist verð lyfja af viðmiðunarkörfum lyfja í öðrum löndum og það vilji gleymast að önnur lönd séu með Ísland inni í sinni viðmiðunarkörfu þegar kemur að ákvörðun hámarksverðs hjá sér.
„Lágt verð á örmarkaðnum Íslandi getur því haft áhrif til lækkunar í öðrum löndum og þá er tæpast hagkvæmt að halda skráningu lyfsins áfram,“ segir í umfjöllun Viðskiptablaðsins.
Aðgerð í andstöðu við markmið laga
Andrés Magnússon segir SVÞ hafa gífurlegar áhyggjur af því að breytingin verði til þess að letja fyrirtæki til að skrá lyf á markað hér á landi og að flóðbylgja afskráningar lyfja eigi sér stað taki reglugerðin gildi í óbreyttri mynd. Slíkt muni leiða til þess að undanþágulyfjum fjölgi, en nú þegar sé um fjórðungur lyfja hér á landi undanþágulyf, sem leiði til aukins kostnaðar og skriffinnsku fyrir lækna, stjórnvöld og markaðsaðila.
„Það má ekki gleyma því að lyfja- og lyfjadreifingarfyrirtækin eru einn hlekkur í keðju heilbrigðiskerfisins. Þessi nálgun niður á lægsta verð stuðlar að minna framboði, er í andstöðu við markmið laganna og stefnir öryggi sjúklinga og kerfisins í voða,“ segir Jakob Falur í viðtali við blaðið.
Þá hafa fleiri gagnrýnisraddir heyrst vegna frumvarpsdraga heilbrigðisráðherra, en Morgunblaðið birti í dag aðsenda grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, undir yfirskriftinni „Lyfjaöryggi í hættu stefnt“. Þar segir hann að lyfjaöryggi á Íslandi verði beinlínis ógnað verði drög ráðherra að gildandi reglugerð.
Grein Ólafs má nálgast HÉR á vef Félags atvinnurekenda.
Umfjöllun Viðskiptablaðsins er svo einnig að finna á vef blaðsins.