Frumtök hafa hvatt lyfjagreiðslunefnd til að taka til skoðunar breytta framkvæmd við útgáfu verðskrár lyfja með tíðari birtingu. Núverandi reglugerð gerir ráð fyrir því að lyfjagreiðslunefnd gefi mánaðarlega út lyfjaverðsrá með gildistöku fyrsta hvers mánaðar.
„Lyfjaverð er beintengt gengi íslensku krónunnar og sveiflast sem því nemur í hverri verðskrá,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka. „Og af því að verðskráin er gefin út nokkru fyrir hver mánaðamót, þótt hún taki gildi fyrsta hvers mánaðar, þá getur þar myndast hvati hjá lyfsölum til að haga lyfjainnkaupum eftir gengisbreytingum, fremur en eftir raunverulegri þörf.“
Dæmi eru um að ákveðin veltumikil lyf hafi verið keypt inn í miklu magni þar sem menn hafa séð fyrir óhagstæða verðbreytingu. „Þetta getur leitt til sóunar og vandræða tengdum birgðahaldi og gæti þar með leitt til tímabundins skorts á viðkomandi lyfi vegna fyrirsjáanlegra hagfelldra verðbreytinga,“ segir Jakob.
Nokkuð hefur verið fjallað um það á undanförnum árum hvort og þá hvernig megi draga úr gengisáhrifum á íslenska markaðinn. Um þetta er meðal annars fjallað í rannsókn ráðgjafarfyrirtækisins Intellecon á íslenska lyfjamarkaðnum sem kom út á síðasta ári.
„Greining á gengissveiflum á árunum 2004 til 2018 leiðir í ljós að kaupendur lyfja, sem í flestum tilfellum eru apótek og heilbrigðisstofnanir, hafa reglulega getað keypt lyf við 3 – 5% lægra verði en annars hefði verið raunin, einungis með því að haga kaupum sínum í samræmi við fyrirsjáanlegar verðbreytingar. Á þeim tímabilum þar sem gengissveiflur hafa verið miklar, hafa kaupendur getað notið allt að 10% lægra verðs, með því að haga innkaupum sínum í samræmi við væntar verðbreytingar,“ segir í skýrslu Intellecon.
Í erindi sínu til lyfjagreiðslunefndar 11. þessa mánaðar hvetja Frumtök lyfjagreiðslunefnd til að taka útgáfu lyfjaverðskrár til skoðunar og leggi til við heilbrigðisráðuneytið að gerð verði breyting á reglugerð um lyfjagreiðslunefnd þannig að lyfjaverðskrá verði uppfærð vikulega með þeim hætti að nýtt gengi lyfjaverðskrár verði birt á hverjum föstudegi þar sem meðalsölugengi Seðlabankans í viðmiðunarmyntum frá föstudegi vikunnar á undan til fimmtudags í þeirri viku sé lagt til grundvallar við uppfærslu lyfjaverðskrár hverju sinni. Uppfærð lyfjaverðskrá taki síðan gildi næsta mánudag.
„Tiltölulega einfalt er að gefa verðskrána oftar út og breytingin myndi engin áhrif hafa á útgjöld hins opinbera til málaflokksins. Hún kæmi hins vegar í veg fyrir þau óheppilegu áhrif sem núverandi fyrirkomulag hefur á markaðinn, sem til dæmis hefur komið fram í magninnkaupum smásala fyrir mánaðamót og þar með mögulega valdið lyfjaskorti vegna óvenjulegra innkaupa,“ segir Jakob Falur.