Skip to main content

Frumtök, samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi, hafa hvatt lyfjagreiðslunefnd til að taka til skoðunar breytta framkvæmd við útgáfu verðskrár lyfja. Núverandi reglugerð gerir ráð fyrir því að lyfjagreiðslunefnd gefi mánaðarlega út lyfjaverðskrá með gildistöku fyrsta hvers mánaðar. Það er sameiginlegt hagsmunamál allra þeirra er koma að lyfjadreifingu í landinu að hún gangi sem best fyrir sig og tryggi sem frekast er unnt örugga og hnökralausa afgreiðslu lyfja. Lyfjaverð er beintengt gengi íslensku krónunnar og sveiflast sem því nemur. Frumtök leggja því til við stjórnvöld að reglur varðandi útgáfu lyfjaverðskrár verði teknar til skoðunar.

Misvísandi skilaboð um lyfjaskort á Íslandi

Umræða um lyfjaskort hefur verið nokkuð áberandi að undanförnu. Margvíslegar ástæður liggja þar að baki, samanber veffrétt Frumtaka sem birt var 25. maí s.l., en þar segir m.a. að „bætt upplýsingagjöf til þjónustufyrirtækja á lyfjamarkaði sé lykilatriði til að lágmarka sem frekast er unnt lyfjaskort hér á landi, en lyfjaskortur getur átt sér margvíslegar ástæður. Yfirleitt er um að ræða ástand sem getur haft áhrif á heimsvísu og alls ekki eingöngu hér á landi.“

Núverandi reglugerð um lyfjagreiðslunefnd gerir ráð fyrir því að nefndin gefi mánaðarlega út lyfjaverðskrá með gildistöku fyrsta hvers mánaðar. Það er sameiginlegt hagsmunamál allra þeirra er koma að lyfjadreifingu í landinu að hún gangi sem best fyrir sig, með örugga og hnökralausa afgreiðslu lyfja að leiðarljósi. Fyrir liggur að margvíslegar ástæður geta verið fyrir lyfjaskorti og útgáfutíðni lyfjaverðskrárinnar ein og sér skýrir ekki lyfjaskort. Samvinna lyfjaheildsala, lyfsöluleyfishafa, dreifingaraðila og stjórnvalda er lykilatriði til að koma í veg fyrir lyfjaskort. Sú samvinna hefur vaxið á undanförnum mánuðum og hafa viðbrögð lyfsöluleyfishafa skipt miklu til að auka öryggi lyfjadreifingar í landinu. Frumtök leggja áherslu á ábyrga og vandaða umfjöllun um málaflokkinn á opinberum vettvangi. Við hörmum að málefni langveikra barna hafi verið tengd í opinberri umræðu við umfjöllun um lyfjaskort. Skal áréttað að sá málflutningur er ekki frá okkur kominn og ekki rétt að tengja saman með þessum hætti. Þá er beðist velvirðingar á ummælum um hamstur við lyfjainnkaup. Þar var farið fram af illa ígrunduðu máli og eru þau ummæli hér með dregin til baka.