Skip to main content

„Mörg mál og merkileg voru til umræðu á vel heppnuðum Læknadögum sem lauk nýverið,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, sem venju samkvæmt tóku þátt í viðburðinum. „Góð lyf eru enda lykilþáttur við að viðhalda almennu heilbrigði og í baráttunni við alvarlega sjúkdóma. Framleiðendur frumlyfja eiga í miklu samstarfi við lækna um framþróun lyfja og læknar þurfa að vera upplýstir um það nýjasta sem á sér stað í lyfjaþróun,“ bætir hann við.

Dæmi um samstarf við rannsóknir og þróun er þriggja ára meðferðarátak heilbrigðisyfirvalda gegn lifrarbólgu C. Öllum sem smitaðir voru af lifrarbólgu C á tímabilinu var boðin lyfjameðferð og þáðu 95% meðferðina. „Ísland gæti þannig orðið fyrsta landið í heiminum til að útrýma lifrarbólgu C og kom fram í umfjöllun um verkefnið á Læknadögum að Ísland sé nú leiðandi meðal þeirra þjóða sem að því markmiði stefna,“ segir Jakob Falur, en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sett þjóðum heims það markmið að útrýma lifrarbólgu C sem meiriháttar heilbrigðisvá fyrir árið 2030.

Góður árangur í meðferðarátakinu heilbrigðisyfirvalda í samstarfi við lyfjafyrirtækið Gilead var meðal þess sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ræddi í ávarpi sínu á læknadögum. Sagði hún meðal annars mikilvægt að viðhalda þeim árangri sem náðst hefði í átakinu.

„Við erum í kjörstöðu sem lítið þróað land með sterka innviði til að draga hingað verkefni á sviði rannsókna og þróunar í lyfjaiðnaði. Mörg dæmi eru um vel heppnuð verkefni á þessu sviði og verði þar aukning á er það starfsemi sem skipt getur þjóðarbúið miklu máli. Engin fyrirtæki verja hærra hlutfalli af veltu sinni til rannsókna og þróunar en þau sem starfa við framleiðslu á lyfjum og líftæknilyfjum,“ bendir Jakob á.

Læknadagar eru árviss viðburður Læknafélags Íslands, en að þessu sinni stóð ráðstefnan í Hörpu í Reykjavík dagana 21. til 25. janúar.