Skip to main content

Aukning er í notkun og þróun líftæknilyfja líkt og nýverið kom fram í viðtali fréttastofu RÚV við Kolbein Guðmundsson, yfirlækni hjá Lyfjastofnun. Hér kunna að vera ónýtt tækifæri til vaxtar í lyfjageira.

„Líftæknilyf eru skilgreind þannig að þau eru lyf sem eru framleidd með hjálp lífvera. Oft eru það bakteríur, sveppir eða aðrar frumur sem er genabreytt til að framleiða ákveðin efni sem eru þá oftast prótein,“ segir Kolbeinn í viðtalinu.

Um leið kemur fram að framleiðsla líftæknilyfja kosti meira en framleiðsla hefðbundinna lyfja, vegna gríðarflókinna ferla við ræktunina.

Bent er á að Alvotech, systurfyrirtæki Alvogen, stefni á framleiðslu á líftæknilyfjum hér á landi, en Frumtök hafa áður bent á að hér séu allir inniviðir til staðar sem henti aukinn lyfjaþróun, framleiðslu og frekari uppbyggingu þekkingarklasa í geiranum.

„Við höfum alla burði til að laða hingað framleiðendur á ólíkum stigum framleiðsluferlis nýrra lyfja,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka. „Hér er nú þegar vísir að þekkingarklasa í lyfjaiðnaði, heilbrigðiskerfið er öflugt og menntunarstig hátt. Við það bætast séríslenskir möguleikar í rannsóknar- og þróunarstarfi.“

Með aukinni þekkingu á ferlinu eykst um leið skilningur á kostnaðinum á bak við þróun frumlyfja, en framleiðendur og einstök lönd vinna saman að því markmiði að tryggja ný lyf á sem hagkvæmustu verði, en tryggja um leið að framleiðendum verði ekki svo þröngt sniðinn stakkurinn að þeir fái ekki sinnt hlutverki sínu.

„Framleiðslu og þróun nýrra lyfja fylgir mikill kostnaður en samfélagslegur ávinningur af lyfjaþróun undanfarinna áratuga er gríðarlegur,“ segir Jakob Falur. Hvernig sá ávinningur er metinn er flókin umræða, samanber áhugaverða grein framkvæmdastjóra systursamtaka okkar í Brussel. Leiðin frá hugmynd að nýtilegu lyfi er afar torfarin, þar sem lyfjafyrirtækin standa undir ströngu ferli rannsókna og þróunar. „Ferlið getur jafnvel tekið 12 til 13 ár áður en lyf kemst á markað. Svo verður náttúrlega ekki nema brot af tilraunum sem farið er af stað með á endanum að nothæfu lyfi.“

Tímabundnu einkaleyfi á nýju lyfi er ætlað að standa undir þróunarkostnaði viðkomandi lyfs, og um leið fjármagna allar þær rannsóknir sem aldrei skiluðu ávinningi.