Skip to main content

„Hvaða stofnun ríkisins á að sinna núverandi hlutverki þjónustufyrirtækjanna? Er það Landspítalinn sem á að taka að sér starfsemi einkafyrirtækja eða á að endurreisa Lyfjaverzlun ríkisins, sem var lögð niður fyrir 25 árum?“ Þessum spurningum og fleirum er varpað fram í aðsendri grein Ólafs Stephensens, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda á vef Kjarnans. Í greininni bregst Ólafur við fullyrðingum sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra setti nýverið fram í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans.

Frumtök hafa áður á þessum vettvangi bent á að vafi leiki á að yfirlýst markmið með þátttöku ríkisins í samnorrænum lyfjaútboðum náist, og geti jafnvel leitt til bæði óhagræðis og kostnaðarauka fyrir ríkið. (Sjá HÉR )

Í ljósi niðurlags fréttar Kjarnans um ávinning af sameiginlegum lyfjainnkaupum sem unnin er upp úr viðtalinu Svandísi, þar sem hún segir koma til greina lyfjainnkaup beint frá framleiðendum, án þess að þjónustufyrirtæki á Íslandi komi að þar, er ekki úr vegi að benda á að fyrirtækin veita mikilvæga þjónustu og því er ósvarað enn hver eigi að fylla skarð þeirra ætli ríkið sér að taka hlutverkið yfir.

Í umfjöllun í frétt Frumtaka fyrir rétt rúmu ári bendir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, á að til að ábyrgjast megi fulla virkni þeirra lyfja sem hér eru í boði þurfi þjónustufyrirtæki að uppfylla strangar kröfur bæði af hálfu framleiðenda þeirra og hins opinbera.

„Verkefnin sem fylgja markaðssetningu, skráningu og dreifingu lyfja eru umfangsmeiri en ætla mætti í fljótu bragði. Fyrirtækin taka að sér fjölþætta, lögbundna skráningu lyfjanna og tryggja rekjanleika þeirra, auk þess að flytja þau inn og sannreyna gæði þeirra,“ benti Jakob á, auk þess að nefna hvernig fyrirtækin sjái líka um að uppfylla skilyrði um merkingar lyfja á íslensku, gæðaeftirlit, lyfjagát og að tryggja að merkingarnar standist kröfur laga og reglna, auk þess að sjá um birgðahald og birgðastýringu með tilheyrandi áhættu vegna sveiflna í eftirspurn og á gjaldmiðlum.

Að mati Frumtaka er þeim sem sinna þessari mikilvægu þjónustu við heilbrigðiskerfið lítill sómi sýndur með því að kalla þá „milliliði“ og um leið lítið gert úr starfi þeirra. Það breytir því þó ekki að sem fyrr er ósvarað spurningunni um hver eigi að taka þessa þjónustu að sér verði þeim kastað fyrir róða og hvort raunverulegur ávinningur fylgi því að endurreisa Lyfjaverslun ríkisins.