Skip to main content

Nokkur tímamót urðu þegar Alþingi samþykkti ný lyfjalög á fundi sínum í gær, 29. júní. Lögin sem taka gildi um næstu áramót koma í stað laga frá 1994. Þau bera þess merki að vera ríflega aldarfjórðungsgömul þótt barið hafi verið í ýmsa bresti á þessum tíma.

Nýju lögin voru samþykkt með 30 greiddum atkvæðum þingmanna stjórnarflokkana. Níu þingmenn voru fjarverandi, þar af fjórir frá stjórnarflokkunum, og þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna tóku ekki þátt í kosningunni.

„Eftir margra ára vinnu hefur það loks gerst að samþykkt hafa verið ný lyfjalög. Þetta er flókinn málaflokkur og frumvarpið hefur tekið nokkrum breytingum á vinnuferlinu,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka. Umsagnir til þingsins voru 27 talsins og Frumtök meðal þeirra sem gerðu athugasemdir við frumvarpið.

„Lögin sem núna falla úr gildi eru frá 1994 og löngu tímabært að fá ný lög. Vonandi styrkir þetta lagalega umgjörð málaflokksins sem er náttúrlega síkvikur og tekur breytingum eftir þróun á sviði heilbrigðisvísinda, heilbrigðisþjónustu og viðskipta svo eitthvað sé nefnt. Í meðförum þingsins nú var komið til móts við ýmislegt í okkar athugasemdum og Frumtök halda áfram að berjast fyrir bættri umgjörð lyfjamála þannig að hér verði fólki tryggður sem greiðastur aðgangur að nýjustu og bestu lyfjum.“

Ný lyfjalög verða fljótlega aðgengileg HÉR á vef Alþingis og ferill málsins í meðförum þingsins er HÉR.

Lögin öðlast gildi 1. janúar 2021, en á sama tíma falla úr gildi lyfjalög, nr. 93 frá 1994, með síðari breytingum, og lyfsölulög, nr. 30 frá 1963, með síðari breytingum. Þá verða um leið smávægilegar orðalagsbreytingar á fleiri lögum til að samræmis sé gætt í orðalagi, svo sem lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, lögum um fjölmiðla, lögum um sjúkratryggingar, sóttvarnalögum, og lögum um Umhverfisstofnun.