Skip to main content

Framlög til lyfjamála aukast um 1.357 milljónir króna milli 2018 og 2019 samkvæmt nýbirtu fjárlagafrumvarpi og verða ríflega 19 milljarðar króna. Með aukningunni virðist tekið tilliti til gengisþróunar og annarra þátta, svo sem mannfjöldaþróunar, segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka.

„Það er ánægjulegt að sjá að stjórnvöld standa við stefnuna sem mörkuð var á síðasta ári þegar látið var af áralangri vanáætlunar á kostnaði við málaflokkinn með tilheyrandi vandræðagangi og sértækra aðgerða þegar fjárheimildir skorti, jafnvel í byrjun árs, til innleiðingar á nýjum lyfjum.“

Í fjárlögunum sem kynnt voru fyrir ári síðan var í fyrsta sinn tekið tillit til raunkostnaðar við innkaup á leyfisskyldum lyfjum, einnig nefnd sjúkrahúslyf, eða S-merkt lyf. Í fjármálaáætlun fyrir árin 2019-2023 sem lögð var fyrir Alþingi í vor er jafnframt bent á að væntingar sjúklinga til meðferðar með nýjum dýrum lyfjum aukist stöðugt og sagt ljóst að sífellt erfiðara verði að mæta auknum kostnaði vegna þessarar þróunar. „Á síðustu tveimur árum hefur innleiðing nýrra lyfja þó verið aukin. Helstu áskoranir eru að skapa sátt um innleiðingu nýrra lyfja og brúa bilið milli væntinga, vísindalegrar framþróunar og fjárheimilda,“ segir þar.

„Framlag til málaflokksins nú er jafnframt í samræmi við þær áætlanir sem kynntar hafa verið í fjármálaáætlun hins opinbera í fyrra og á þessu ári, sem og lyfjastefnu sem samþykkt var á vorþingi 2017,“ segir Jakob Falur.