Skip to main content
Tribune, Reuters, EuropaPress

Fjallað var um afléttingu hafta á Íslandi í fjölmiðlum víða um heim. Hér hefur bólusetning gengið afar vel.

Ástæða er til að fagna þeim stórkostlega áfanga sem náð var hér á landi fyrir síðustu helgi með afléttingu takmarkana innanlands vegna heimsfaraldurs COVID-19.

Um er að ræða afrakstur átaks heilbrigðisyfirvalda og breiðri samstöðu almennings sem byggir á einstæðum árangri lyfjaframleiðenda við framleiðslu og markaðssetningu bóluefna.

„Ég held að allir hafi fundið hvernig var eins og fargi var létt af samfélaginu með því að ekki þurfi lengur að bera grímur eða hafa í huga nándarreglur og fjöldatakmarkanir. Hér hefur bólusetning tekist afar vel og þátttaka í henni verið góð,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka.

„Árangurinn endurspeglar líka mikilvægi lyfjaþróunar og -framleiðslu fyrir allan heiminn og hversu mikilvægt er að til staðar séu mörg öflug fyrirtæki á því sviði sem burði hafi til að nálgast þróun og framleiðslu bóluefna hvert með sínum hætti.“

Jakob Falur bendir á að ekki hafi liðið nema rúmt ár frá því kórónuveirunnar varð fyrst vart að komin voru bóluefni í framleiðleiðslu. „Og að fyrir tilstilli bólusetningar sé á svo skömmum tíma hjarðónæmi náð á Íslandi þannig að hægt sé að aflétta takmörkunum er ekkert minna en stórkostlegt. Til að ná þessum árangri hefur þurft samhent átak allra sem hlut eiga að máli og endurspeglar virði þeirrar þekkingar og tækni sem lyfjageirinn hefur yfir að ráða.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafði á því orð á blaðamannafundi sl. föstudag, þegar tilkynnt var um fulla afléttingu takmarkana að hún snerist aðallega um bólusetningarnar. „Við getum þakkað það fyrst og fremst þessari ofboðslega góðu þátttöku í bólusetningum þar sem við getum verið ofboðslega stolt af. Við erum komin í fremstu röð í bólusetningum,“ er eftir henni haft í umfjöllun Fréttablaðsins.

Enn er þó verk að vinna og tók forsætisráðherra einnig undir orð Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sem minnti á stöðu landsins í stærra samhengi. „Við erum ekki búin fyrr en það er búið að bólusetja heiminn.“

Lyfjageirinn vinnur áfram hörðum höndum að framleiðslu og áframhaldandi þróun bóluefna til þess að mannkyn allt standi sem best gagnvart ógnum á borð við kórónuveiruna og birtingarmyndir hennar. „Skjót viðbrögð við þessum heimsfaraldri og hvernig sú barátta gengur er til þess fallin að auka bjartsýni á velgengni varðandi áskoranir framtíðar og í baráttunni við skæða sjúkdóma. Þar leikur framleiðsla nýrra lyfja lykilhlutverk,“ segir Jakob Falur.