Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi.
Meðal stofnaðila Frumtaka eru öll helstu frumlyfjafyrirtæki heims og umboðsfyrirtæki þeirra hér á landi, auk þeirra sem sinna rannsóknum og þróun á þessu sviði hér á landi, s.s. Íslensk erfðagreining. Skilyrði fyrir aðild að samtökunum eru að fyrirtækið, eða fulltrúi þess á Íslandi, stundi lyfjarannsóknir, þrói, framleiði eða markaðssetji lyf. Fyrirtæki sem hafa að markmiði að þróa og markaðssetja samheitalyf og apótek eða apótekakeðjur sem framleiða lyf geta ekki átt aðild að Frumtökum.