Endurskoða þarf verðlagshömlur sem settar eru á lyf að því er fram kemur í nýrri umfjöllun Viðskiptablaðsins. Vitnað er til skýrslu Hagfræðistofnunar um lyfjamarkaðinn.
Í skýrslunni er sagt koma fram að verðlagshamlanir sem settar séu á lyf hér á landi valdi því að framboð á lyfjum hér sé einungis þriðjungurinn af því framboði sem í boði er á Norðurlöndum.
Lyfjagreiðslunefnd ákvarðar verslunarálagningu lyfseðilsskyldra lyfja bæði í heildsölu og smásölu, með það að markmiði að tryggja að lyf séu á viðráðanlegu verði. „Þetta er klárlega kerfi sem þarf að endurskoða. Það að lyfjaverð sé svona fast veldur ýmsum vandkvæðum. Það þarf að rukka fyrir lyf og framleiðendur munu ekki skrá lyf hér á landi nema þau hagnist á því. En með núverandi fyrirkomulagi er verðið á þeim lyfseðilsskyldum lyfjum sem í boði eru keyrt niður. Því þarf að skoða hvort það megi ekki bara leyfa fyrirtækjunum að rukka meira fyrir þau,“ segir Ágúst Arnórsson, hagfræðingur og einn af höfundum skýrslunnar, í viðtali við Viðskiptablaðið.
Þá er haft eftir Jörundi Kristinssyni heimilislækni að hann hafi miklar áhyggjur af skorti á lyfjum sem hér hafi komið upp, sem jafnvel hafi leitt til þess að notuð hafi verið í sumum tilvikum sýklalyf með breiða virkni í stað sérvirkra lyfja, en það geti ýtt undir sýklalyfjaónæmi. Verið geti að lyfjaverð þyrfti að vera hærra til að auka líkur á að lyf verði skráð hér á markað. „Það er hugsanlega rétt því ef lyfjaverð væri hærra þá sæju framleiðendur þessara lyfja sér hag í því að bjóða upp á þau hér á landi. Svo gæti smæð markaðarins einnig spilað inn í. Svo má ekki gleyma þeim mikla kostnaði sem fylgir því að hafa lyf skráð. Þetta skapar mikinn vanda fyrir bæði lækna og sjúklinga og er virkilega tímafrekt.“
Frumtök hafa beitt sér fyrir breytingum á umgjörð ákvarðana hins opinbera um verð á lyfjum hér á landi sem auka myndu hvata til að skrá lyf hér á landi, en um leið varað við breytingum sem kynnu að vinna á móti yfirlýstum markmiðum um bætta þjónustu, aukið aðgengi að lyfjum og hagkvæmni í innkaupum. (Sjá t.d. HÉR.)
„Um er að ræða viðkvæman markað þar sem sinnt er afar mikilvægri þjónustu við íslenskt heilbrigðiskerfi. Við höfum haft áhyggjur af því að ekki hafi verið hugað nægilega að áhrifum breytinga sem til skoðunar eru. Í grein Viðskiptablaðsins er nefnt að fyrirhugaðar séu breytingar á lyfjalögum, sem er í sjálfu sér rétt, en verra er að þær breytingar snúa í engu að þeim vanköntum sem fjallað er um í skýrslunni og raunar hefur lítill gaumur verið gefinn ábendingum sem settar hafa verið fram um leiðir til úrbóta,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka.