Í umsögn Frumtaka um lyfjaverðstefnu, tillögur að bættri lyfjaumsýslu hins opinbera, í Samráðsgátt stjórnvalda eru lagðar til aðgerðir í nokkrum liðum. Ber þar hæst að lyfjaverðstefna hins opinbera taki mið af og verði í samræmi við heilbrigðisstefnu, lyfjalög og ályktun Alþingis um lyfjastefnu og að horft sé til þeirra markmiða sem þar er að finna.
Nái tillögur Frumtaka fram að ganga telja samtökin að aðstæður skapist sem ýti undir aukna fjölbreytni á íslenskum lyfjamarkaði. „Verði fleiri lyf markaðssett mun lyfjum á undanþágulista fækka, lyfjaöryggi aukast, líkur á lyfjaskorti minnka og aukin samkeppni leiða til virkari verðsamkeppni,“ segir í umsögninni.
Bent er á að tillögur að árlegri verðendurskoðun og hagfelldara umhverfi til markaðssetningar lyfja komi til með að auka samkeppni sem leiði til lækkunar lyfjaútgjalda. Þá sé vert að skoða smásölumarkaðinn, en á Íslandi séu apótek tvisvar til fjórum sinnum fleiri en í viðmiðunarlöndunum sé miðað við höfðatölu.
Frumtök hafa ítrekað bent á að núverandi kerfi sé ekki til þess fallið að fjölga lyfjum á markaði og fækka lyfjum á undanþágulista eins og ákall er um.
„Forsenda breytinga hvað varðar fjölbreytni á íslenskum lyfjamarkaði er að heilbrigðisyfirvöld viðurkenni að Ísland er hlutfallslega dýr örmarkaður og frekari íþyngjandi kröfur um lág verð munu ekki auka á framboð lyfja, þvert á móti. Kerfið sem við búum við er of flókið, ógagnsætt og hindranir of margar. Því er hér kallað eftir samtali heilbrigðisyfiralda og fulltrúa markaðsleyfishafa til að einfalda kerfið og auka gagnsæi með það að markmiði að fjölga lyfjum á markaði og auka samkeppni. Þannig má uppfylla meginmarkmið lyfjalaga, þ.e. að tryggja nægilegt framboð af nauðsynlegum lyfjum með öryggi sjúklinga að leiðarljósi,“ segir í umsögn Frumtaka.
Fram kemur í umsögninni að hér á landi eru útgjöld til heilbrigðismála, sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu, tiltölulega lág miðað við hinar Norðurlandaþjóðirnar.
Um leið kemur fram að hér á landi hefur verið bætt verulega í heilbrigðisútgjöldin á undanförnum árum, en án þess þó að útgjöld til lyfjamála hafi aukist líkt og önnur heilbrigðisútgjöld.
Í umsögn Frumtaka er bent á á staðreynd að hér eru lyf ekki markaðssett í sama mæli og í okkar helstu viðmiðunarlöndum.
„Ástæður þess eru smæð markaðarins, hlutfallslega hár kostnaður, krafa um lágt lyfjaverð og að einhverju leiti smár gjaldmiðill með ófyrirsjáanlegum gjaldeyrissveiflum,“ segir þar og um leið bent á að gildandi lög og reglur um ákvörðun lyfjaverðs og greiðsluþátttöku hafi haft verulega neikvæð áhrif á innleiðingu nýrra lyfja.
„Að horfa til lægsta verðs á Norðurlöndunum þegar kemur að skráðu hámarksverði hér á landi hefur verið meiriháttar hindrun þegar kemur að innleiðingu nýrra lyfja og er alls ekki til þess fallin að koma til móts við fyrrnefnt markmið lyfjalaga að tryggja sem frekast er unnt nægilegt framboð af nauðsynlegum lyfjum með öryggi sjúklinga að leiðarljósi. Hugmyndir, líkt og kynntar voru í lok síðasta árs, um lægsta verð á Norðurlöndunum sem almenn regla eru með öllu óraunhæfar og verða að víkja og þar með sú hindrun á eðlilega framþróun markaðarins sem krafa um lágt og ósjálfbært lyfjaverð er.“
Staðreyndin er að Ísland sker sig verulega úr samanborið við hin Norðurlöndin þegar kemur að innleiðingu nýrra lyfja. Ný lyf koma almennt síðast á markað hér á landi af öllum Norðurlöndunum. Hvort heldur horft er til innleiðingar nýrra lyfja almennt, eða horft nánar á innleiðingu nýrra krabbameinslyfja, er Ísland langt fyrir neðan meðaltal Evrópuríkja á meðan öll hin Norðurlöndin eru ofan við meðaltalið, líkt og sjá má hér að neðan.
Þá er staðreynd að hér líður mun lengri frá því að ný lyf fá markaðsleyfi Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) þar til markaðsleyfi fæst hér á landi en gerist í nágrannalöndunum. Meðaltími í Danmörku er 94 dagar frá EMA-markaðsleyfi, 196 í Svíþjóð, 349 í Finnandi og 376 í Noregi. Hér á landi er meðalbiðtími eftir aðgengi að nýjum lyfjum 451 dagur frá samþykki Lyfjastofnunar Evrópu.
„Núverandi staða Íslands þegar kemur að innleiðingu nýrra lyfja er dapurleg, samanborið við vestur Evrópu almennt,“ segir í umsögn Frumtaka og stjórnvöld sögð hljóta að þurfa að svara því hvar við viljum vera í samanburði við Norðurlöndin hvað varðar aðgengi að nýjum lyfjameðferðum og þar með hvernig við viljum sjá heilbrigðiskerfi okkar þróast í þeim samanburði.
„Núverandi kerfi er ekki til þess fallið að fjölga lyfjum á markaði og fækka lyfjum á undanþágulista eins og ákall er um. Til þess er kerfið of flókið, ógagnsætt og hindranirnar of margar. Því er hér kallað eftir samtali heilbrigðisyfiralda og fulltrúa markaðsleyfishafa til að einfalda kerfið með það að markmiði að fjölga lyfjum á markaði og að Ísland verði á pari við viðmiðunarlöndin hvað varðar upptöku nýrra lyfja í stað þess að reka lestina eins og nú er.“
Umsögn Frumtaka má finna HÉR og nýlega umfjöllun Morgunblaðsins um málið HÉR og HÉR.