Skip to main content

Um síðastliðin mánaðamót tók gildi ákvörðun Lyfjagreiðslunefndar um aukinn stuðning við veltulítil lyf. Ákvörðun nefndarinnar felur í sér heimild til hærri álagningar á veltulítil lyf, en viðmiðið, sem verið hefur óbreytt frá árinu 2005, var hækkað úr 3,5 milljónum króna í 6,0 milljónir.

„Miklu skiptir að tryggja framboð allra nauðsynlegra lyfja á okkar litla markaði. Umsýslu með lyf fylgir mikill kostnaður og því hafa stjórnvöld að ákveðnu marki sýnt skilning. Þessi ákvörðun lyfjagreiðslunefndar stuðlar að því að styðja við framboð veltulítilla lyfja og tryggja frekar aðgengi að þeim og að þau haldi markaðsleyfi og fari ekki í hóp svokallaðra undanþágulyfja, en það eykur allan kostnað við lyfin,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka.

„Þessi breyting er fagnaðarefni, því hún treystir umgjörð lyfjamála og styður við gott aðgengi að nauðsynlegum lyfjum. Við höfum kallað eftir hækkun þessa viðmiðs í mörg ár og hefði upphæðin fylgt almennri verðlagsþróun þá ætti viðmiðið nú að vera rúmar sjö milljónir króna.“

Fram kemur í frétt Lyfjagreiðslunefndar að ákvörðunin um hækkunina á kostnaðarálagi veltulítilla lyfja hafi verið tekin á 316. fundi nefndarinnar þann 11. mars síðastliðinn. „Frá og með 1. maí nk. geta lyfjainnflytjendur sótt um allt að 15% álag á markaðssett lyf að því gefnu að áætluð ársvelta með veltuálagi sé undir 6 milljónum króna,“ segir þar.