Skip to main content

Íslandi hefur verið tryggður aðgangur að fimm nýjum bóluefnum við kórónuveirunni, Covid-19, sem komin eru langt í þróun. Þetta eru bóluefni frá frumlyfjaframleiðendunum Pfizer, Janssen Pharmaceutica, AstraZeneca og Sanofi, GSK og Moderna.

Að svo mörg bóluefni skuli vera þróuð á jafnskömmum tíma og um ræðir er fáheyrt, og líklega einsdæmi.

Þróun bóluefna hefur alla jafna tekið 10 til 15 ár frá fyrstu rannsóknum og þróun þar til þau eru komin á framleiðslustig. Þá hefur að jafnaði tekið 12 til 36 mánuði að framleiða bóluefnin áður en þau eru tilbúin til dreifingar. Í heimsfaraldri Covid-19 var sú krafa gerð á framleiðendur að koma fram með bóluefni til notkunar á 12 til 18 mánuðum. Og gangi áætlanir eftir verður ekki nema rúmt ár liðið frá því þróun lyfjanna var hafin þar til þau verða komin í notkun.

Tvö eru mjög langt komin

„Þessi mikli hraði næst vegna samstöðu um að búa svo um hnúta að þetta yrði hægt og þéttrar samvinnu allra sem að ferlinu koma, eftirlitsstofnana og opinberra aðila, fyrirtækjanna og rannsóknarstofnana,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda á Íslandi.

Í nýlegri umfjöllun Morgunblaðsins kom fram að tvö bóluefni væru mjög langt komin í prófunum, en framleiðendur þeirra ráðgerðu að sótt yrði um leyfi til fjöldaframleiðslu á næstu dögum eða vikum. Þar er vísað til bóluefna frá Moderna annars vegar og hins vegar frá Pfizer og BioNTech. Virkni þessara bóluefnanna hefur lofað mjög góðu og er sögð um 95 prósent í fyrstu niðurstöðum rannsókna sem fyrirtækin hafa birt. Þá hefur virkni bóluefnis AstraZeneca, sem unnið er í samstarfi við Oxford-háskóla, sögð geta verið allt að 90 prósentum.

Þá hefur komið fram að gangi allt að óskum megi gera ráð fyrir að fyrstu skammtar af bóluefni við kórónuveirunni komi hingað til lands í byrjun næsta árs og að bólusetning gæti hafist í janúar eða febrúar. Sóttvarnalæknir hefur sagt undirbúning bólusetningar í fullum gangi. Fáist strax bóluefni í magni á bólusetning að geta gengið hratt fyrir sig, en berist efnið í minni skömmtun verður forgangsraðað hvaða hópar fá fyrst aðgang að bóluefni.

Áskorun fyrir vöruhúsin

Bóluefnin kalla á mismikið umstang við geymslu og dreifing, en hluta þeirra þarf að geyma og flytja í miklu frosti. Þegar koma þarf slíkum efnum í notkun í miklu magni á skömmum tíma reynir bæði á framleiðendur og dreifingarfyrirtæki.

„Þetta verður mikil áskorun fyrir vöruhúsin, en um leið er á það að líta að þau búa yfir mikilli reynslu og höndla vandmeðfarin lyf á hverjum degi, lyf sem jafnvel þarf að geyma og flytja í miklu frosti. Magnið er áskorunin, en þau mál verða bara leyst þegar að því kemur,“ bætir Jakob Falur við.

Evrópskir lyfjaframleiðendur hafa með sérstakri yfirlýsingu staðfest vilja sinn til að bregðast hratt og örugglega við í þróun og framleiðslu bóluefna og í baráttu við sjúkdóma. Á vef EFPIA, Evrópusamtaka frumlyfjaframleiðenda, má kynna sér viðbrögð lyfjageirans við Covid-19, sjá HÉR. Þá hafa samtökin líka innan vébanda sinna átakshóp um framleiðslu bóluefna, Vaccines Europe, og þar hafa líka verið teknar saman almennar upplýsingar um bóluefni, sjá HÉR.