Fjárfesting lyfjaframleiðenda í rannsóknum og þróun (R&D) hefur farið vaxandi hér á landi undanfarin ár. Vegur þar þungt fjárfesting Novartis, að því er lesa má úr gögnum um samskipti lyfjafyrirtækja við heilbrigðisstarfsfólk og heilbrigðisstofnanir á árinu 2017, sem finna má á vef Frumtaka. Á síðasta ári lagði Novartis 56,7 milljónir króna í rannsóknar og þróunarstarf hér á landi, og tæpar 163 milljónir séu síðastliðin þrjú ár tekin saman.
Á heimsvísu stendur Novartis að margvíslegum rannsóknum á sviði hjarta-, gigtar-, húð- og taugasjúkdóma. Hér á landi er fyrirtækið með mikla starfsemi og tekur þátt í rannsóknum sem samþykktar hafa verið af Vísindasiðanefnd. Þar á meðal er ein af umfangsmestu rannsóknum sem hér hafa verið gerðar, sem er svo nefnd Kynslóðarannsókn (eða Generation Programme), þar sem rannsökuð er virkni lyfsins CNP520 í baráttunni við Alzheimer-sjúkdóminn.
Átta til tíu stöðugildi
Að Kynslóðarannsókninni standa einnig, auk Novartis, Amgen, móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar og bandaríska rannsóknarstofnunin Banner Alzheimer Institute. Líkt og fram kom í umfjöllun Fréttablaðsins í vor leikur Ísland lykilhlutverk í rannsókninni, þótt hún nái einnig til fjölda annarra landa. Um tíundi partur af heildarfjölda þátttakenda verða hér á landi, eða 200 manns. Næststærsta rannsóknarsetrið, á eftir Íslandi, er með 20 þátttakendur.
Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar hér á landi er Jón Snædal yfirlæknir öldrunarsviðs Landspítalans. Hann segir rannsóknina vel á veg komna, en hún hófst hér opinberlega 29. janúar síðastliðinn. „Gerður var samningur við Landspítalann um rannsóknina og síðan á grundvelli hans undirsamningur við Þjónustumiðstöð rannsóknaverkefna í Kópavogi, sem vinnur að rannsókninni. Þar hafa verið ráðnir starfsmenn í þessa rannsókn,“ segir hann og áætlar að um sé að ræða átta til tíu stöðugildi. Rannsóknin sjálf standi að lágmarki í fimm ár. Skima þarf allt að 350 manns, til þess að ná upp í 200 manna úrtakið, segir Jón, en til þess að vera tækir í rannsóknina þarf fólk að vera með tiltekna arfgerð, vera á aldrinum 60 til 75 og með eðlilega vitræna getu.
Allir innviðir til staðar
Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, segir mikils virði fyrir íslenskan lyfjageira að jafn umfangsmikil rannsókn fari fram hér á landi. „Hér eru gífurleg tækifæri fólgin í áframhaldandi uppbyggingu þekkingariðnaðar í lyfjageira,“ segir Jakob Falur, en lyfjaframleiðendur skera sig úr þegar kemur að framlögum til rannsókna og þróunar. „Hvergi í öðrum geirum skila fyrirtæki jafnháu hlutfalli af veltu í rannsóknir og þróun, en rúmum 16 prósent af veltu lyfja- og líftæknifyrirtækja er veitt til rannsókna og þróunar.“ Í öðru sæti er svo hugbúnaðar- og tölvuþjónusta, sem ver 9,7 prósentum af veltu til rannsókna og þróunar.
„Hér eru allir innviðir til staðar, auk þekkingar sem byggst hefur upp undanfarin ár og því ómæld tækifæri tengd því að styrkja og efla þekkingu í íslenskum líftækni- og lyfjageira,“ segir Jakob Falur.