Fallið var frá breytingum sem boðaðar voru fyrir áramót í nýrri reglugerð um lyfjaverð og hefðu sett lyfjamarkað á Íslandi í uppnám.
Rétt fyrir jól féllst heilbrigðisráðuneytið á gagnrýni þá, sem fram kom í umsögnum um reglugerðardrögin. Ákveðið var að láta standa óbreytt að sinni þau ákvæði sem fundið var að, en stefnt að frekari endurskoðun reglugerðarinnar með hagsmunaaðilum á fyrsta fjórðungi ársins.
Að sögn Jakobs Fals Garðarssonar, framkvæmdastjóra Frumtaka, var þessi niðurstaða mikill léttir fyrir íslenskan lyfjamarkað, en á það hafði verið bent að næðu breytingarnar fram að ganga gæti það orðið til þess að fæla framleiðendur lyfja frá því að markaðssetja þau hér á landi.
„Líklegast er nú bara að þarna hafi átt sér stað mistök hjá ráðuneytinu og fagnaðarefni að brugðist hafi verið skjótt og vel við ábendingum um augljósa galla sem stefnt hefðu getað lyfjaöryggi í landinu í uppnám,“ segir Jakob. „Lyfja- og lyfjadreifingarfyrirtækin eru mikilvægur hlekkur í keðju heilbrigðiskerfisins og nauðsynlegt að það umhverfi sem þeim er hér búið af hinu opinbera styðji við markmið lyfjalaga um framboð á nauðsynlegum lyfjum.“
Samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins eru ákvæði um viðmiðunarlönd við verðákvarðanir lyfja óbreytt frá fyrri reglugerð og áfram miðað við Norðurlönd. Eins að hámarksverð hér á landi miði við meðalverð en ekki lægsta verð í EES-löndum eins og ráðgert hafði verið.
Nýja reglugerðin um verðlagningu og greiðsluþátttöku lyfja tók gildi um áramót, um leið og ný lyfjalög.