„Bætt upplýsingagjöf til þjónustufyrirtækja á lyfjamarkaði er lykilatriði til að lágmarka sem frekast er unnt lyfjaskort hér á landi, en lyfjaskortur getur átt sér margvíslegar ástæður. Yfirleitt er um að ræða ástand sem getur haft áhrif á heimsvísu og alls ekki eingöngu hér á Íslandi,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda á Íslandi.
Jakob segir þjónustufyrirtæki á íslenskum lyfjamarkaði gera sitt besta í umhverfi sem á alla kanta er stýrt af hinu opinbera. „Góð þjónusta við sjúklinga skiptir öllu, og ef eitthvað má betur fara til að einfalda og liðka fyrir skráningu lyfja hér á landi og auka þar með aðgengi að sértækum lyfjum eru fyrirtækin að sjálfsögðu tilbúin til viðræðna við stjórnvöld. Markmiðið hlýtur að vera að tryggja sem frekast er unnt skilvirka þjónustu við heilbrigðiskerfið og tryggja sem frekast er unnt að veita hér á landi heilbrigðisþjónustu sem standist samanburð við það sem best gerist í heiminum.“
Þegar upp hefur komið skortur af einhverjum orsökum, leggja umboðsmenn erlendu lyfjafyrirtækjanna hér á landi oft á sig mikla vinnu við að hafa upp á og útvega lyf og koma þeim til landsins með eins miklu hraði og kostur er. „Og hafa þá stundum rekið sig á sérkennilega hluti á borð við að Lyfjagreiðslunefnd, sem samþykkja þarf verð á lyfinu hingað komnu, neiti að samþykkja nema sem nemur meðalverði á Norðurlöndum, jafnvel þótt lagt hafi verið í mikinn tilkostnað við að koma lyfinu hingað með hraði í flugi og raunkostnaður sé miklu meiri.“
Þannig séu dæmi um að þjónustufyrirtæki hér heima hafi greitt með lyfjum sem þau hafi verið beðin að útvega.
Lyfjastofnun fjallaði sérstaklega um lyfjaskort í ársskýrslu sinni fyrir árið 2014 og tiltekur nokkrar tegundir af skorti. Ein er tímabundinn skortur þar sem stundum er hægt að brúa bilið með samheitalyfi eða öðrum skammtastærðum sama lyfs. Önnur er þegar eina lyfið sinnar tegundar er afskráð af markaði hér. Þriðja dæmið er svo skortur sem upp getur komið á heimsvísu.
Vantar aukinn sveigjanleika
Meðal úrræða sem Lyfjastofnun benti á í skýrslu sinni er aukinn sveigjanleiki þegar kemur að undanþágum vegna skorts, og aukinn sveigjanleiki í ákvörðun á verði nauðsynlegra lyfja sem vantar á markað hér.
„Hluta af þeim vanda sem hér hefur orðið vart má rekja til skorts á sveigjanleika í regluverkinu og að þjónustufyrirtækin hér fá ekki nógu góðar upplýsingar um sjúklinga og eftirspurn. Sömuleiðis getur mögulega haft áhrif á markaðssetningu nýrra lyfja hér á landi hvernig opinber verðákvörðun hér á landi getur haft áhrif inn á önnur markaðssvæði,“ segir Jakob Falur.
Þjónustufyrirtæki á íslenskum lyfjamarkaði leggi sig hins vegar fram um að útvega lyf með hraði þegar notkun á þeim eykst óvænt, sem getur komið upp, jafnvel í kjölfar umfjöllunar í fréttum eða á samfélagsmiðlum. Fari sala úr tíu pakkningum á viku í 100 eða meira, þá séu fljótar að hverfa þær þriggja mánaða birgðir sem alla jafna sé miðað við að séu til.
„Lykilatriði er að umgjörð lyfjamála hér á landi sé þannig háttað að liðkað sé fyrir skráningu nauðsynlegra lyfja og að ekki séu í kerfinu innbyggðir múrar sem trufli þjónustuna, hvort sem það er vegna ónógra upplýsinga eða stífni þegar bregðast þarf við auknum kostnaði sem til fellur vegna sérstakra ráðstafana.“
Sjá nánar: https://www.lyfjastofnun.is/eftirlit/lyfjaskortur/