Um þessar mundir eru 15 ár liðin frá því Frumtök, samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi, voru stofnuð. Til stóð að minnast tímamótanna með ýmsum hætti, en viðbúnaður vegna kórónuveirunnar hefur óneitanlega sett strik í þau áform.
„Þrátt fyriri það fannst okkur eftir öll þessi ár kominn tími til að lífga upp á vefinn okkar og upplagt að miða þá endurhönnun við þessi tímamót,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka. Nýr og endurbættur vefur fór í loftið samhliða því að Frumtök voru með rafræna kynningu á nýafstöðnum Læknadögum.
Í rafrænum bás Frumtaka mátti líka nálgast kynningarmyndbönd um lyfjageirann sem Frumtök létu gera í tilefni af 15 ára afmælinu.
„Við viljum með gerð myndbandanna varpa ljósi á það mikilvæga starf sem unnið er af hálfu og fyrir aðildarfyrirtæki Frumtaka, um leið og okkur langaði til að sýna nokkur þeirra andlita sem vinna í geiranum. Hópurinn sem vinnur þessi störf er fjölbreyttur, en þau sem í honum eru eiga öll sammerkt að vera mikilvægur hlekkur í heilbrigðiskerfinu,“ bætir Jakob við.
Myndböndin má kynna sér nánar hér fyrir neðan.
Sóley Valgeirsdóttir, sérfræðingur í klínískum rannsóknum hjá Vistor:
Klínískar rannsóknir eru forsenda þess að hægt sé að koma á markað nýjum og betri lyfjum, segir Sóley.
Anna Elín Kjartansdóttir, gæðastjóri Icepharma:
Lyfjafyrirtæki starfa eftir ströngu og flóknu regluverki og hvergi vikið frá kröfum um að upplýsingar á íslensku fylgi lyfjum, jafnvel þótt einungis seljist af þeim nokkrar pakkningar á ári, segir Anna Elín.
Auðunn Rúnar Gissurarson, viðskiptastjóri hjá Vistor:
Miklu máli skiptir að geta fært til landsins ný lyf og lyfjameðferðir og ánægjulegt að heyra frá heilbrigðisstarfsfólki þegar ný lyf hafa hjálpað sjúklingum, segir Auðunn Rúnar.
Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastóri Distica:
Við erum á hverju tíma með til reiðu lager til þriggja mánaða, til að tryggja heilbrigðiskerfinu aðgang að nauðsynlegum lyfjum, segir Júlía Rós.
Hörður Þórhallsson, forstjóri Icepharma:
Mér finnst við vinna samfélaginu gagn með því að tryggja aðgang að oft á tíðum lífsnauðsynlegum lyfjum, segir Hörður.
Davíð Ingason, viðskiptastjóri hjá Vistor:
Framleiðsluferill lyfja er flókin og miklar kröfur gerðar, svo sem til efnanna sem notuð eru til lyfjagerðarinnar, segir Davíð. Oftast sé hægt að bjarga málum hratt þegar dæmi koma upp um lyfjaskort.
Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka:
Stóru alþjóðlegu lyfjafyrirtækin standa að gríðarmiklum rannsóknar- og þróunarverkefnum um heim allan og gæti orðið íslensku efnahagslífi mikil lyftistöng þótt ekki næðist að draga hingað nema örlítið brot til viðbótar af þeirri starfsemi, segir Jakob Falur.