Skip to main content

Eins og glöggir lesendur síðunnar taka eftir er komið nýtt merki fyrir samtökin okkar og uppfærð ásýnd hér á vefnum. Og það er með ákveðnu stolti sem við setjum nú í loftið nýtt merki og nýja ásýnd. Merkið og ásýndin er sköpunarverk auglýsingastofunnar VORAR og varð til á grundvelli innanhússgreiningar og samtala um hver við erum og hvað við stöndum fyrir.

Nýja merkið okkar er byggt á demantsformi sem er í eðli sínu stöndugt form. Tvö “F” fléttast saman í fjórum formum á stílfærðan hátt sem vísar í þá samstöðu og styrk sem næst með samtökunum. Glögg geta mögulega séð tilvísun í DNA form í merkinu.

Teikningin í merkinu er tímalaus, hún er einföld og stílhrein og til þess fallin að vekja traust. Hún er grípandi og með faglegt yfirbragð. Mettaði dökkblái liturinn er blandaður úr þeim svarta og bláa í eldra merkinu, hann er klassískur og traustvekjandi. Nýi græni tónninn poppar upp litina en hann gefur ákveðna tilvísun í heilbrigðisgeirann almennt.