Skip to main content

Undanþága sem Samkeppniseftirlitið hefur veitt fyrir samstarfi keppinauta á vettvangi innflutnings og dreifingar á lyfjum gildir til loka maí á þessu ári. Farið var fram á undanþáguna og hún veitt 13. þessa mánaðar, til þess að tryggja mætti viðbrögð við heimsfaraldri COVID-19 veirunnar.

„Samkeppniseftirlitið brást skjótt við beiðni Félags atvinnurekenda og SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu sem send var eftirlitinu deginum áður fyrir hönd aðildarfyrirtækja samtakanna, Parlogis og Distica. Ánægjulegt er að sjá hvarvetna, jafnt fyrirtækjum sem opinberum aðilum, fumlaus og fagleg viðbrögð við þeim fordæmalausum aðstæðum sem nú eru uppi,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka.

Í undanþágubeiðninni var bent á að nú væri í gildi hér á landi neyðarstig vegna heimsfaraldurs COVID-19 og að ríkisstjórnin hafi samþykkt að beita sér fyrir markvissum aðgerðum til að mæta efnahagslegum áhrifum faraldursins. Þá tæki föstudaginn 13. mars gildi 30 daga ferðabann frá Evrópu til Bandaríkjanna og ekki væri ljóst hvaða áhrif ákvörðun Bandaríkjanna hefði á fraktflug milli Íslands og Bandaríkjanna.

„Að mati fyrirtækjanna sé yfirvofandi raunveruleg hætta á að skortur á heildarsýn um stöðu birgða og dreifingu í landinu komi niður á möguleikum dreifingaraðila, smásala og heilbrigðiskerfisins til þess að bregðast við COVID-19 með árangursríkum hætti. Við þessar stöðu og annarri sem upp kunni að koma verði helst brugðist með samstarfi,“ segir í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins og að í því ljósi hafi fyrirtækin ekki talið hjá því komist að sækja um undanþágu frá 10. og 12. gr. samkeppnislaga.

Undanþágan var veitt með eftirfarandi skilyrðum Samkeppniseftirlitsins:

  1. Samstarfið er bundið þeim skilyrðum að Lyfjastofnun meti samstarfið nauðsynlegt hverju sinni og að stofnunin sé þátttakandi eða sé gefinn kostur á að vera þátttakandi í öllum samskiptum sem lúta að samstarfinu.
  2. Umrætt samstarf og samskipti á milli fyrirtækjanna skal afmarkað við markmið samstarfsins, líkt og því er líst í ákvörðun þessari, og ekki ná til verðlagningar eða annarra viðkvæmra viðskiptahagsmuna og upplýsinga.
  3. Gæta skal að því að viðkvæmar viðskiptaupplýsingar, um önnur atriði en undanþágan nær til, berist ekki á milli fyrirtækjanna, eða annarra félagsmanna Félags atvinnurekenda og Samtaka verslunar og þjónustu.
  4. Samstarfsaðilar skulu halda skrá yfir samskipti sem falla undir undanþáguna.
  5. Samstarfið verði tímabundið og í samræmi við lýsingu í undanþágubeiðni og ákvörðun þessari. Við lok samstarfsins verði teknar saman upplýsingar um umfang og áhrif aðgerðanna og þær kynntar Samkeppniseftirlitinu.

Þegar tímabili undanþágunnar lýkur verður svo metið á ný hvort þörf þyki á áframhaldandi samstarfi.

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er að finna á vef embættisins.